Gæði kennslu í grunnskólum. Markmið, samræða og faglegar kröfur

Háskóli Íslands

Gæði kennslu í grunnskólum. Markmið, samræða og faglegar kröfur

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Birna M. Svanbjörnsdóttir

„Klárum niður bls. 38, glæsilegt!“ Markmið og endurgjöf kennara á unglingastigi – myndbandsupptökur

Birna María Svanbjörnsdóttir, lektor, HA og Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Almennt er viðurkennt að góð kennsla skipti sköpum fyrir nám nemenda. Hvað nákvæmlega felst í góðri kennslu er umdeilanlegt en aukin samstaða er þó um að hún einkennist af skýrum námsmarkmiðum og styðjandi endurgjöf í kennslustundum. Markmiðssetning og endurgjöf byggir á samskiptum kennara og vísbendingar eru um að ákveðnir þættir í endurgjöf hafi meiri áhrif en aðrir og stuðli fremur að árangri nemenda. Við greiningu myndbanda úr kennslustundum í þremur námsgreinum á unglingastigi í íslenskum skólum voru gæðin metin út frá matstækinu PLATO. Þar eru viðmið sett fram í fjögurra bila matskvarða þar sem þrep fjögur lýsir mestum gæðum. Samkvæmt kvarðanum felst góð markmiðssetning í að ræða námsmarkmið við nemendur og vísa til þess í kennslustundinni. Á sama hátt er góð endurgjöf uppbyggjandi, efnisleg og leiðbeinir nemendum í átt að námsmarkmiðinu. Rannsóknir á gæðum kennslu (QUINT) annars staðar á Norðurlöndum benda til að bæði séu skýr tengsl milli markmiðssetningar og endurgjafar í kennslustofunni og gæðum þeirra. Þar raðast þessir þættir einkum á annað þrep viðmiðanna í PLATO. Á Íslandi virðist staðan svipuð, þó með einhverjum undantekningum eftir námsgreinum. Í málstofunni verða viðmiðin um markmiðssetningu og endurgjöf í PLATO kynnt og fyrstu niðurstöður er varða þá þætti í íslensku kennslustundunum.

 

Faglegar kröfur til nemenda í stærðfræði

Berglind Gísladóttir, lektor, MVS, HÍ og Jóhann Örn Sigurjónsson, doktorsnemi, MVS, HÍ

Rannsóknin er hluti af Norrænu öndvegissetri um gæði kennslu á Norðurlöndum, QUINT (Quality in Nordic Teaching). Skoðað er hvernig gæði kennslu hafa áhrif á nám nemenda. Tíu íslenskir skólar tóku þátt í rannsókninni. Skólarnir voru valdir af hentugleika í þeim tilgangi að reyna að tryggja fjölbreytileika úrtaksins, bæði með tilliti til mismunandi staðsetningar, fjölbreytts nemendahóps og ólíkra skóla. Þessi rannsókn byggir á 35 kennslustundum í 8. bekk í stærðfræði. Alls tóku ellefu stærðfræðikennarar þátt í rannsókninni. Við greiningu myndbandsgagnanna var greiningarramminn PLATO (Protocol for Language Arts Teaching Observation) nýttur en hann inniheldur fjóra yfirþætti; „stigskiptur stuðningur í kennslu“, „faglegar kröfur“, „framsetning og notkun námsefnis“ og „aðstæður í kennslustofunni“. Í þessu erindi verða faglegar kröfur til skoðunar og hvernig þær birtast í stærðfræðikennslu í íslenskum grunnskólum. Í greiningarrammanum vísa faglegar kröfur til vitsmunalegrar áskorunar og eðli samræðna í kennslustund. Auk þess voru stærðfræðiverkefni kennslustundanna greind samkvæmt greiningarrammanum „Task Analysis Guide“ sem metur hversu mikla hugsun nemendur þurfa að leggja í úrlausn verkefna. Sýnt hefur verið fram á að mikilvægur þáttur í gæðum kennslu er að nemendur hafi tækifæri til að takast á við viðfangsefni sem krefjast greinandi og skapandi hugsunar, auk þess að þurfa færa rök fyrir máli sínu. Niðurstöður greiningar sýna að í meirihluta kennslustundanna eru faglegar kröfur sem gerðar eru til nemenda ekki á mjög háu stigi.