Gæði kennslu í grunnskólum. Bekkjarstjórn, fjölbreytileiki og COVID-19

Háskóli Íslands

Gæði kennslu í grunnskólum. Bekkjarstjórn, fjölbreytileiki og COVID-19

2. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Málstofustjóri: Kristín Jónsdóttir

Bekkjarstjórnun og nýting á tíma. Hvað einkennir kennslustundir sem nemendur telja vel stjórnað?

Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor, MVS, HÍ og Kristín Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Bekkjarstjórnun hefur löngum verið talin eitt af flóknari verkefnum kennara, sérstaklega þeirra reynsluminni. Markmið þessarar rannsóknar er að draga fram hvað einkennir kennslustundir sem nemendur telja vel stjórnað samanborið við hinar sem nemendur meta að ekki sé eins vel stýrt. Byggt er á myndbandsupptökum af 120 kennslustundum í 8. bekk í íslenskum grunnskólum. Jafnframt svöruðu allir nemendur í þessum kennslustundum spurningalista  (N=581) þar sem þeir voru beðnir um að meta viðkomandi kennara meðal annars út frá aðferðum hans við að hafa stjórn á bekknum. Út frá svörum nemenda verða valdar upptökur til að greina sérstaklega hvað einkennir aðferðir kennara við bekkjarstjórnun og þar með talið hvernig tíminn er nýttur. Í erindinu verða kynntar niðurstöður sem byggja á svörum nemenda og á greiningu á dæmum um kennsluaðferðir kennara sem bera af í bekkjarstjórnun að mati nemenda. Innan við helmingur þeirra sem svöruðu spurningalistunum taldi að nemendur hegðuðu sér vel í tímum. Þó töldu aðeins um 13% að hegðun nemenda væri oft eða alltaf vandamál. Það sýnir að margir nemendur láta slæma hegðun yfir sig ganga. Um 64% nemenda sögðust oft eða alltaf vinna vel í kennslustundum og nýta tímann vel en upp undir 70% sögðust oft eða alltaf læra mikið í tímum. Athugendur mátu að bekkjarstjórnun væri í mjög góð í um 60% þess tíma sem skoðaður var. Forvitnilegur munur kemur fram milli faggreina en gögnin ná til kennslustunda í íslensku, samfélagsfræði og stærðfræði, en fæst agavandamál komu upp í stærðfræðitímum.

Hvað einkennir góða kennslu fyrir fjöltyngda nemendur?

Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, HA og Kristín Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Í erindinu verður athygli beint að hópi nemenda sem ekki hefur íslensku að móðurmáli út frá gögnum rannsóknarinnar Gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT/Quality in Nordic Teaching). Fjöltyngd börn dragast stundum aftur úr jafnöldrum sínum þegar líður á grunnskólagönguna eins og marka má meðal annars af lakari meðalárangri á samræmdum prófum og PISA. Þetta er til marks um að grunnskólunum sem heild hefur ekki tekist að sinna þeim jafn vel og öðrum nemendum. Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að draga fram hvernig megi auka gæði kennslu til að mæta þörfum þessa hóps, en hann þarf markvissa kennslu til að njóta sín í námi til jafns við aðra. Nokkrir þættir í PLATO (Protocol for Language Arts Teaching Observations), greiningartækinu sem notað er til að greina myndböndin, vísa á kennslufræðileg atriði sem varða gæði kennslu fyrir alla en snerta sérstaklega þennan hóp. Í erindinu sýnum við myndbrot úr kennslustundum, sem dæmi um þau atriði, þ.e. umræður sem kennsluaðferð (e. classroom discussions); sýnikennslu til að útskýra námsefni og leiðir til að tileinka sér það (e. modelling); notkun kennara á fagmáli námsgreina og stuðningsefni (e. accommodation for language learning); og hvernig kennarar geta útskýrt námsaðferðir fyrir nemendum sínum (e. strategy use and instruction). Ensk heiti í svigum vísa til PLATO-greiningartækisins. Í erindinu verður fjallað um ofangreind atriði í greiningartækinu með hliðsjón af völdum myndbandsbrotum og færð rök fyrir því að í góðri kennslu eru þessi kennslufræðilegu atriði skýr og þeim markvisst beitt, en þau geta skipt sköpum fyrir nám fjöltyngdra nemenda.

„Þetta hefði ekki gengið svona vel ef við værum ekki með krakka sem eru svona ótrúlega mikil kamelljón“. Reynsla og viðbrögð kennara í kórónufaraldrinum

Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt, HA

Skólar nú á dögum standa frammi fyrir kröfum um að auka upplýsingatækni í skólastarfi. Rannsóknir sýna að töluverðar áskoranir fylgja því að nota upplýsingatækni í kennslu, breyta kennsluháttum og námsumhverfi. Margt bendir til þess að notkun upplýsingatækni sé takmörkuð og að þörf sé á að rannsaka hvaða áhrif notkun upplýsingatækni hefur á gæði kennslu, nám og námsumhverfi.

Í erindinu verður greint frá fyrstu niðurstöðum úr viðtalsrannsókn sem er hluti af langtímarannsókninni Connected Classrooms Nordic (CCN), QUINT (Quality in Nordic Teaching). Rannsóknin fer fram á öllum Norðurlöndum, er sjónum beint að notkun upplýsingatækni í skólastarfi og markmiðið er að skoða hvað einkennir gæði kennslu í stafrænu námsumhverfi. Í viðtalsrannsókninni voru tekin viðtöl við kennara í fjórum þátttökuskólum CCN og þeir spurðir um reynslu sína og viðbrögð við aðstæðunum sem sköpuðust í COVID-19. Langtímarannsóknarsnið CCN gefur rannsakendum einstaka stöðu til að rannsaka notkun upplýsingatækni í skólastarfi fyrir faraldur, meðan á honum stóð og að honum loknum, með myndbandsupptökum úr kennslustundum haustin 2019, 2020 og 2021. Viðtölin við kennarana eru mikilvægur hlekkur í þeirri rannsókn. Ljóst er að í COVID-19 stóðu skólar frammi fyrir því að þurfa að breyta hefðbundnu skólastarfi með stafrænum lausnum, færa skólastarf á form fjarkennslu og skapa stafrænt námsumhverfi á ótrúlega skömmum tíma.