Frammistöðumat í teymis- og hópavinnu

Háskóli Íslands

Frammistöðumat í teymis- og hópavinnu

2. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rúnar Unnþórsson

Frammistöðumat í þverfræðilegu nemendadrifnu verkefnisnámskeiði

Guðmundur Valur Oddsson, prófessor, VON, HÍ og Rúnar Unnþórsson, prófessor, VON, HÍ

Í erindinu verður sýnt hvernig nota má aðferðafræði sem höfundar eru að þróa til að meta frammistöðu nemenda í nemendadrifinni teymisvinnu. Aðferðafræðin er mjög gagnlegt tæki fyrir kennara sem hafa umsjón með flóknu teymi nemenda og þurfa að geta greint frammistöðu á kerfisbundinn hátt. Aðferðafræðin getur hugsanlega nýst við mat á frammistöðu annars konar liða – t.d. í iðnaði. Sýnt verður hvernig greina má frammistöðu teymisvinnu í námskeiðinu Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls sem hefur verið í boði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild síðan 2011. Markmið verkefnisins hafa verið þau sömu öll árin – að fá fleiri stig en árið áður með því að bæta hönnun og smíði bílsins og að liðið mæti betur undirbúið. Farið verður yfir sögu verkefnisins, þróun þess frá upphafi og árangur í erlendum keppnum. Árangur nemenda í keppnum er mældur með keppnisstigum en heildarfjöldi stiga hefur verið svipaður öll árin. Tilraunir til að bæta frammistöðu liðsins í keppnum hafa því ekki skilað sér. Í erindinu verður sýnt hvernig aðferðafræðin nýtist til að öðlast betri skilning á hvað kemur í veg fyrir að nemendateymið nái markmiðunum. Sýnt verður hvernig myndræn framsetning nýtist kennurum til að finna þætti sem koma í veg fyrir að nemendateymið nái tilætluðum árangri. Nokkur þeirra atriða sem eru dregin fram voru þekkt en aðferðafræðin gerir þau betur sýnileg og gerir kennara auðveldara að taka á þeim.

 

Aðferðafræði fyrir frammistöðumat í nemendadrifinni teymisvinnu

Rúnar Unnþórsson, prófessor, VON, HÍ og Guðmundur Valur Oddsson, prófessor, VON, HÍ

Í erindinu verður kynnt aðferðafræði sem höfundar eru að þróa til að meta frammistöðu nemenda í nemendadrifinni teymisvinnu. Námskeið sem byggja á nemendadrifinni teymisvinnu, einnig þekkt sem sjálfstæð hópavinna, bjóða nemendum upp á að læra og þjálfa færni sem ekki er hægt í hefðbundnum námskeiðum – til að mynda að vinna saman í þverfaglegum teymum að því að beita þekkingu sinni til að hanna og smíða lausnir á flóknum raunverulegum viðfangsefnum. Erlend fagfélög í verkfræði, eins og ASME, IEEE, SAE og ASCE, hafa áttað sig á mikilvægi þess konar verkefna fyrir verkfræðinemendur. Í gegnum þannig verkefni geta nemendurnir öðlast mikilvæga þekkingu og reynslu sem þeir munu búa að og atvinnulífið einnig. Aðferðafræðin sem kynnt verður er hugsuð sem verkfæri sem kennarar geta beitt til að bera kennsl á þætti í teymisvinnunni sem hindra nemendateymið í að verða skilvirkt og árangursríkt. Aðferðafræðin byggir á ítarlegri greiningu á ritrýndu efni sem birt hefur verið um árangur teyma. Höfundar kortlögðu aðferðir sem nota má til að mæla árangur teyma og einnig þá þætti sem hafa áhrif á árangur þeirra. Niðurstaðan er aðferðafræði sem beita má á teymi nemenda, sérstaklega á nemendadrifna teymisvinnu – t.a.m. sjálfstæð rannsókna- og þróunarverkefni. Í erindinu verður aðferðafræðin útskýrð og sýnt hvernig nota má myndræna framsetningu niðurstaðna til að finna þætti sem koma í veg fyrir að nemendateymið nái tilætluðum árangri. Aðferðafræðina er auðvelt að nota og niðurstöður hennar auðvelda kennaranum við að greina hvar vandamál liggja – en fjölmörg vandamál geta verið til staðar í fjölfaglegum verkefnum.

Hamfaradagar í byrjun náms í verkfræði

Haraldur Auðunsson, dósent, HR, Ásrún Matthíasdóttir, lektor, HR og Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor, HR

Frá haustinu 2011 hafa allir nemendur sem hefja nám í verkfræði við Háskólann í Reykjavík tekið þátt í tveggja daga námskeiði sem nefnist Hamfaradagar. Námskeiðið er oftast haldið í fimmtu viku fyrstu annar námsins og þessa tvo daga er gert hlé á hefðbundnu námi og kennslan brotin upp á annars langri haustönn. Verkefnið sem nemendur fá í fangið í námskeiðinu er bæði óvænt og óljóst, gjarnan hamfarir, og er reynt að móta verkefnið þannig að það veki áhuga og að hópvinna sé eðlileg leið til að kljást við það. Í hverjum hópi eru nemendur á sömu braut í verkfræði og hópurinn velur hvernig hann nálgast verkefnið. Haustið 2019 var verkefnið alheimsplága og það þurfti að loka landinu í snarhasti, og fyrri verkefni hafa snúist um viðbrögð við eldgosum, að þurfa óvænt að halda Eurovision eða aðkallandi hönnunarverkefni. Kannanir gerðar strax í lok námskeiðsins sýna að nemendur eru almennt ánægðir með Hamfaradaga, en til að kanna áhrifin til lengri tíma tókum við formleg viðtöl við nemendur fljótlega eftir námskeiðið, einu ári síðar og tveimur árum síðar. Í viðtölunum kemur skýrt fram að nemendur voru ánægðir með tilbreytinguna frá hefðbundnu námi, að lenda í hópvinnu með einstaklingum sem þeir þekktu ekki fyrir væri góður undirbúningur fyrir framtíðina og að hópurinn þeirra varð hluti af félagahópnum og jafnvel námsfélagar út námið. Út frá könnunum og viðtölum getum við ályktað að Hamfaradagar eru eflandi byrjun á námsferli nemenda í verkfræði og að reynslutengt nám reynist vel til að efla færni í hópvinnu.