Framhaldsskólinn á tímamótum

Háskóli Íslands

Framhaldsskólinn á tímamótum

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Guðrún Ragnarsdóttir

Fagleg forysta víkur fyrir tæknilegum úrlausnarefnum úr ytra umhverfi framhaldsskóla: Sýn og reynsla aðstoðarskólameistara

Hildur Halldórsdóttir, skólastjórnandi, Menntaskólinn á Ísafirði og Guðrún Ragnarsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðstoðarskólastjórar hafi þær væntingar til starfs síns að þeir geti veitt faglega forystu innan skólans. Daglegar annir við ýmis krefjandi tæknileg úrlausnarmál virðast þó koma í veg fyrir að það takist. Rannsóknir innan íslenska grunnskólans sýna það sama. Markmið erindisins er að fjalla um upplifun aðstoðarskólameistara í íslenskum framhaldsskólum af starfi sínu og hvaða verkefnum þeir sinna. Erindið byggir á viðtölum við átta aðstoðarskólameistara í framhaldsskólum sem skiptust á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Gögnin voru þemagreind. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að aðstoðarskólameistarar vilja gjarnan verja meira af tíma sínum við að styðja kennara í faglegu starfi og hafa meiri forystu um faglegt starf innan skólans. Þeir sögðu flestir að annir við önnur tæknileg verkefni sem bærust frá yfirvöldum menntamála gerðu þeim það erfitt. Það var einnig upplifun flestra viðmælenda að ef upp komu verkefni sem ekki voru augljóslega í verkahring ákveðinna starfsmanna innan skólans þá lentu þau verkefni hjá aðstoðarskólameistara. Þeir voru því oft störfum hlaðnir sem dró úr möguleikum þeirra til forystu í kennslufræðilegum málum. Niðurstöðurnar benda til að á undanförnum árum hafi verkefni framhaldsskólanna og stjórnenda þeirra orðið sífellt fjölbreyttari og flóknari. Því er mikilvægt að starfskraftar aðstoðarskólameistara nýtist sem best og að kröftum þeirra sé beint í meiri mæli að innra starfi skólanna. Til þess að það geti orðið þarf skýrari ramma um forystuhlutverk þeirra og tryggja að rými gefist í daglegu starfi til þess að sinna því.

Áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs: Viðhorf, reynsla og sýn háskólakennara

María Jónasdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Guðrún Ragnarsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS, HÍ

Árið 2014 gaf mennta- og menningarmálaráðherra stjórnendum framhaldsskóla tilmæli um að stytta stúdentsprófsbrautir úr fjórum árum í þrjú. Hægt er að rekja þessar breytingar til evrópskra strauma með áherslu á samanburð og skilvirkni. Með styttingunni var gerð umfangsmikil breyting á starfi íslenskra framhaldsskóla. Nú þegar liðin eru sex ár frá breytingunni er tímabært að skoða áhrif hennar, og þá sérstaklega á undirbúning fyrir háskólanám, en fyrsti heili árgangurinn sem fór allur í gegnum þriggja ára kerfið útskrifaðist vorið 2019. Erindið byggir á rannsókn höfunda á áhrifum styttingar námstíma til stúdentsprófs innan Háskóla Íslands. Tekin voru hálfopin viðtöl við deildarforseta (n=5) og reynda háskólakennara (n=11) af öllum námssviðum skólans; alls sextán viðtöl. Viðtölin voru greind með þemagreiningu þar sem kenningum um gagnrýna menntunarfræði er beitt. Niðurstöður benda til þess að talsverður munur sé á því hversu mikil áhrif háskólakennarar telja að stytting námstíma til stúdentsprófs hafi haft á nám og kennslu innan Háskóla Íslands og munur reyndist vera á viðhorfum, sýn og reynslu viðmælenda eftir fræðasviðum. Viðmælendur nefndu m.a. atriði eins og hæfni nemenda til að þreyta skrifleg lokapróf, slakari íslenskukunnáttu og verri undirbúning í stærðfræði. Einnig kom fram að val innan framhaldsskólans hefði áhrif á aðsókn í ákveðnar námsleiðir í háskóla. Á þeim sviðum sem finna mest fyrir breytingunum hefur verið umræða um breytt inntökuskilyrði, t.d. með inntökuprófum eða meiri stýringu út frá þreyttum einingum, breytingar á inntaki náms og jafnvel sérstakar undirbúningsleiðir. Niðurstöðurnar varpa fram áleitnum spurningum um afleiðingar styttingarnar og aðlögun háskólastigsins að breyttum aðstæðum.

Framhaldsskólinn og heimilin á tímum COVID-19: Áskoranir og tækifæri

Guðrún Ragnarsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Súsanna Margrét Gestsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Sú samfélagskreppa sem heimsbyggðin hefur staðið frammi fyrir á síðustu misserum vegna COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á starf íslenskra framhaldsskóla. Á einni helgi fluttist öll kennsla yfir í fjarnám. Samhliða breyttist heimilislíf allflestra fjölskyldna í landinu og heimilin urðu á svipstundu vinnustaður, skóli og samverustaður fjölskyldunnar. Markmið erindisins er að varpa ljósi á upplifun og reynslu kennara, nemenda og foreldra af fjarnámi í samkomubanni á tímum COVID-19. Erindið byggir á fyrstu gögnum sem safnað var eftir þrjár vikur í banni frá kennurum, nemendum og foreldrum í framhaldsskólum um námið og helstu áskoranir en einnig á spurningalista sem lagður var fyrir starfsmenn íslenskra framhaldsskóla. Spurningalistinn tekur mið af lífi og starfi þeirra á tímum samkomubanns vegna COVID-19 og munum við beina sjónum okkar að kennurum. Fyrstu niðurstöður sýna að framhaldsskólakennarar, nemendur og foreldrar tókust á við ýmsar nýjungar á þessum tíma og að álagið var mikið. Kennarar leituðu fjölbreyttra leiða til að miðla og koma til móts við nemendur, á sama tíma og þeir voru að kljást við ýmsar tækninýjungar. Allt bendir til að skil á milli heimilis og skóla hafi verið óljós og að ólík efnahags- og félagsleg staða nemenda hafi haft áhrif á námsframvindu þeirra. Sumir nemendur fengu aðstoð heima frá foreldrum eða eldri systkinum, aðrir leituðu í félagahópinn á meðan enn aðrir nemendur fengu lítinn stuðning við námið. Niðurstöðurnar vekja áleitnar spurningar um menntun og félagslegt réttlæti á sama tíma og þær gefa mikilvægar upplýsingar um framhaldsskólastarf á tímum mikilla breytinga.