Foreldrar og skólinn 

Kl. 12:00-13:30

Hrund Þórarins Ingudóttir

Sýn umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla á þörf fyrir uppeldisfræðslu, ráðgjöf og stuðning til foreldra barna á aldrinum 10-13 ára

Sigrún Helgadóttir, skólastjórnandi Flóaskóla og Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor, MVS HÍ 

Foreldrahlutverkið getur í senn verið bæði ánægjulegt og krefjandi. Jafnframt eru viðfangsefni foreldra í hlutverkinu síbreytileg eftir aldri og þroska barns. Þegar barn er á aldrinum 10-13 ára eru foreldrar að takast á við önnur verkefni en áður. Eitt stærsta verkefnið á þessu aldursskeiði er grunnskólaganga barna og því er mikilvægt að foreldrar og kennarar vinni náið saman að námi og velferð barna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þörf á uppeldisfræðslu, ráðgjöf og stuðningi fyrir foreldra barna á aldrinum 10-13 ára út frá sjónarhorni umsjónarkennara á miðstigi grunnskólans. Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt við söfnun og greiningu gagna. Tekin voru átta hálf opin viðtöl við starfandi umsjónarkennara á miðstigi grunnskólans. Helstu niðurstöður eru að umsjónarkennararnir telja að auka þurfi framboð á faglegri uppeldisfræðslu, ráðgjöf og stuðningi við foreldra hérlendis. Þeir sjá jafnframt fyrir sér að uppeldisfræðsla og stuðningur við foreldra geti verið samofin skólagöngu barna. Umsjónarkennararnir nefna ýmsa þætti sem þeir telja að megi fræða foreldra um svo sem net- og skjánotkun barna og foreldra, samveru og samskipti foreldra og barna, mörk, uppeldisaðferðir, jafningjasambönd, svefn, næringu, hreyfingu, útivistarreglur og þroska. Þá tala allir umsjónarkennararnir um að í íslensku samfélagi sé mikill hraði og streita hjá foreldrum. Enn fremur telja flestir umsjónarkennaranna sig hafi fengið litla menntun í foreldrasamstarfi og litla sem enga menntun í hvernig þeir geti stutt foreldra í uppeldishlutverkinu. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að nýtast við stefnumótun á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og nýtast þannig foreldrum og börnum þeirra.  

 

Að nesta fyrir framtíðina eða berja börn til bókar? Reynsla foreldra af heimalestri

Anna Söderström, doktorsnemi, FVS HÍ 

Mikil áhersla er lögð á læsi í gildandi menntastefnum og læsi skilgreint sem grunnfærni og hæfni fyrir framtíðina. Á sama tíma leggur menntakerfið mikla ábyrgð á foreldra vegna lestrarþjálfunar barna án þess að taka tilliti til ólíkra aðstæðna foreldra til að takast á við þetta hlutverk í daglegu lífi. Í þessu erindi verður sjónarhorninu beint að foreldrum í þeim tilgangi að greina upplifun þeirra og reynslu af heimalestri barna. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á tíu opnum hálfstöðluðum djúpviðtölum við foreldra barna í 1.-6. bekk grunnskóla. Foreldrarnir eru með ólíkan bakgrunn og lesa mismikið með börnum sínum. Þær niðurstöður sem hér eru kynntar eru hluti af yfirstandandi doktorsrannsókn í þjóðfræði þar sem áherslur á lestur og lestrarmenningu í íslensku samfélagi eru teknar til skoðunar með aðferðum gagnrýninnar orðræðugreiningar. Helstu niðurstöður sýna að mikill munur er á hvort foreldrum finnist erfitt eða auðvelt að sinna heimalestri barna sinna sem m.a. vekur spurningar um jafnrétti til náms. Flestir viðmælendur fundu fyrir stressi og kvíða í sambandi við heimalesturinn. Einnig kom fram að foreldrum þótti lesefni sem skólinn útvegaði vera ábótavant og neyddust því sjálfir að útvega bækur handa börnum sínum. Þá voru flestir foreldrar þeirrar skoðunar að lestur væri mjög mikilvægur, en upplifðu á sama tíma að fyrirkomulag heimalesturs hefði neikvæð áhrif á lestraráhuga barna sinna þar sem hann væri of þvingaður og formfastur. Niðurstöðurnar vekja upp spurningar hvort endurskoða megi fyrirkomulag heimalesturs og bæta framkvæmd hans með það að markmiði að aðlaga betur að þörfum nemenda og foreldra. 

 

Þörf á uppeldisfræðslu fyrir foreldra 0-2 ára barna: Sjónarhorn starfsfólks í ung- og smábarnavernd

Þórey Huld Jónsdóttir, skólastjórnandi, Urriðaholtsskóla og Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor, MVS HÍ  

Fyrstu tvö æviár barns eru afar mikilvæg og hafa áhrif á þroska og velferð út ævina. Áríðandi er að foreldrar séu vel í stakk búnir fyrir hlutverk sitt og geti með besta móti stutt við og mætt þörfum barna sinna. Þörf á uppeldisfræðslu og stuðningi við foreldra ungbarna hefur lítið verið skoðuð hérlendis. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf starfsfólks ung- og smábarnaverndar, sem hittir nánast öll ungbörn og foreldra þeirra í reglulegum skoðunum fyrstu æviár barnsins, á þörf fyrir uppeldisfræðslu til foreldra 0-2 ára barna. Einnig var markmiðið að kanna hvaða viðfangsefni tengd uppeldi starfsfólkið teldi brýnast að foreldra fengju fræðslu um sem og skoða reynslu starfsfólksins af að veita foreldrum fræðslu um uppeldi. Spurningalisti var sendur á 62 af 63 starfsstöðvum ung- og smábarnaverndar landsins, alls 200 starfsmenn. Svör bárust frá 101 þeirra. Unnið var úr tölulegum gögnum og svör við opnum spurningum voru þemagreind. Helstu niðurstöður sýna að mikil þörf er á aukinni faglegri uppeldisfræðslu og stuðningi við foreldra. Þátttakendur töldu foreldra þurfa almenna fræðslu um uppeldi, þroska barna – þá sérstaklega tilfinningaþroska, tengslamyndun, umönnun, foreldrahlutverkið og skjátíma. Um helmingur taldi foreldra gera óraunhæfar kröfur til barna sinna miðað við aldur og þroska þeirra. Þá taldi um helmingur þátttakenda foreldra eiga erfitt með að setja börnum sínum mörk og fylgja þeim eftir. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að nýtast við stefnumótun foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar, vera gagnlegar þeim sem starfa við fræðslu til foreldra og með því nýtast foreldrum og börnum þeirra.