Fjölmenning, tungumál, skapandi ferli og starfendarannsóknir

Kl. 12:00-13:30

Rannsóknarstofa um starfendarannsóknir (RannSTARF) og Rannsóknarstofa um skólastarf (RASK)

Karen Rut Gísladóttir

Töfrandi tungumál: Starfendarannsókn í fjölmenningarlegum leikskóla

Saga Stephensen, verkefnastjóri og ráðgjafi, Reykjavíkurborg

Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað í íslenskum leikskólum á undanförnum árum. Í drögum að heildstæðri stefnu um menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku er lögð áhersla á menningu og móðurmál barnanna sem auðlind sem kemur börnunum og samfélaginu til góða. Í þessu erindi segir frá starfendarannsókn í leikskóla sem hófst vorið 2017 og lauk í maí 2018.

Tilgangur rannsóknarinnar var að gera heimamál barnanna sem sýnilega auðlind í starfi leikskólans. Markmið rannsóknarinnar var að draga fram atvik úr leikskólastarfinu til að skoða hvernig við náðum að vinna með heimamál og heimamenningu barnanna. Rannsóknarspurning: Hvernig get ég sem deildarstjóri og verkefnastjóri fjölmenningar komið auga á tækifæri til að hlúa að heimamáli barnanna í samstarfi við starfsfólk? Gögnin í rannsókninni voru vettvangsnótur, rannsóknardagbók og skráning á umræðum og samtölum við samstarfsfólk, stjórnendur, teymi, foreldra og börn.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fyrsta skrefið í að hlúa að heimamálum barna í leikskólastarfi sé að taka ákvörðun um að heimamál þeirra skipti máli og setja ramma utan verkefnið til að bæði starfsfólk og börn eignist hlutdeild í framvindu þess. Aukin hlutdeild og meðvitund um heimamál barnanna varð til þess að starfsfólk fór að koma auga á fleiri tækifæri til að flétta tungumálum barnanna inn í starfið og bjóða foreldra til þátttöku í þessari vinnu. Í lok verkefnis töluðu bæði kennarar og foreldrar um jákvæð áhrif af verkefninu og aukið sjálfstraust barna þegar þeirra tungumál var tekið fyrir. Einnig urðum við vör við aukinn áhuga og meðvitund allra barna á tungumálum almennt.

 

„Má ég koma til þín núna“: Innleiðing á Byrjendalæsi í kennslu nemenda með íslensku sem annað mál

Sigurveig Margrét Önundardóttir, kennari, Grunnskóla Grindavíkur

Í skólasamfélaginu hefur nemendum af erlendum uppruna fjölgað mikið á undanförnum árum. Mikilvægt er fyrir kennara að hafa vitneskju um kennsluaðferðir sem nýtast vel í kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Þetta erindi segir frá starfendarannsókn sem hófst í mars 2019 og stóð fram í október sama ár. Tilgangur rannsóknarinnar var að nýta aðferðir Byrjendalæsis til að efla flæði á milli íslenskukennslu og kennslu íslensku sem annars máls. Markmiðið var að rannsaka kennslu mína til að skilja hvernig ég nýti aðferðir Byrjendalæsis til að efla íslenskunám nemenda með íslensku sem annað mál. Rannsóknarspurningin var: Hvaða leiðir nýti ég til að innleiða hugmyndafræði Byrjendalæsis í vinnu minni með nemendum sem hafa íslensku sem annað mál? Gögnin sem aflað var á rannsóknartímanum voru rannsóknardagbók, rýnihópaviðtöl, og samtöl við nemendur. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að efling orðaforða var ein mesta áskorunin í starfi mínu sem kennari nemenda með íslensku sem annað tungumál. Lestur á gæðatexta skilaði góðum árangri og fram kom mikil þörf á að nemendur fengju lestur gæðatexta í minni námshópum. Í rannsóknarferlinu fann ég hversu mikilvægt það var fyrir mig að efla samstarf við foreldra og gefa nemendum tækifæri til að nýta sér móðurmál sitt í námi. Það virtist auka öryggi þeirra og veita þeim aukið sjálfstraust í verkefnavinnu. Ég fann einnig að erfitt var fyrir mig að fylgja Byrjendalæsi alveg eftir sökum fárra kennslustunda sem ég fékk með nemendum og því var mikilvægt að forgangsraða og aðlaga markmið að bakgrunni og reynslu þessa nemendahóps.

 

Íslenskukennsla í fjölmenningarlegum nemendahópum á unglingastigi: Starfendarannsókn

Anna Hulda Einarsdóttir, kennsluráðgjafi, Reykjanesbæ

Aukinn fjöldi nemenda af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi kallar á nýja nálgun og viðhorf í skólastarfi. Hér segir frá starfendarannsókn sem unnin var veturinn 2017–2018. Tilgangur rannsóknarinnar var að þróa eigin viðhorf og kennsluhætti sem íslenskukennari á unglingastigi til þess að koma til móts við nemendur með ólíkan menningar- og tungumálabakgrunn. Markmiðið var að draga fram atvik í kennslu til að skoða bæði áskoranir og tækifæri í eigin kennslu til að vinna út frá auðlindum nemenda. Rannsóknarspurning var: Hvaða leiðir fer ég sem íslenskukennari á unglingastigi til að koma til móts við ólíkan menningar- og tungumálabakgrunn nemenda? Rannsóknargögnin sem aflað var voru rannsóknardagbók, verkefni nemenda, fundir, samskipti við nemendur og tölvupóstsamskipti. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að mín stærsta áskorun í að nýta auðlindir nemenda í kennslu var að átta mig á hvernig eigin hugmyndir og viðhorf til náms, kennslu og árangurs blinduðu mér sýn. Það var ekki fyrr en ég náði að horfast í augu við eigin hugmyndir að ég gat farið að stíga skref til að skapa margvísleg námsrými þar sem unnið var út frá auðlindum nemenda; reynslu þeirra, menningar- og tungumálabakgrunni. Stærsti lærdómurinn sem ég tek með mér er að kennarar og starfsfólk skóla þarf að fá tækifæri til að ígrunda eigin starfshætti á gagnrýninn hátt til að taka meðvituð skref í átt til fjölmenningarlegra viðhorfa og starfshátta. Skrefin kunna að virðast lítil og geta verið hægfara en hafa meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir.

 

Starfendarannsóknir og kennsla á mörkum ólíkra menningarheima

Karen Rut Gísladóttir, dósent, MVS HÍ

Fjölmenningarlegir kennsluhættir taka mið af því að litið sé á tungumála- og menningarbakgrunn nemenda sem auðlindir í skólastarfi. Að koma auga á margvíslegar tungumála- og menningarauðlindir sem auðlindir kallar á að kennarar og starfsfólk skóla ígrundi á gagnrýninn hátt eigin reynslu og bakgrunn og skoði hvaða áhrif hugmyndir þeirra um nám og kennslu hafi á tækifæri nemenda til að vinna út frá eigin auðlindum í námi. Slík vinna er bæði tilfinninga- og vitsmunalegt ferli sem krefst getu til að vinna úr eigin ígrundun með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Starfendarannsóknir eru leið sem kennarar geta nýtt til að fara í gegnum þetta ferli. Í þessu erindi dreg ég fram áskoranir sem ég sem heyrandi íslenskukennari í kennslu heyrnarlausra stóð andspænis í að þróa með mér þá gagnrýnu huglægni og rannsakandi hugarfar sem þurfti til að mæta tungumála- og menningarauðlindum nemenda á unglingastigi með táknmál að móðurmáli. Ég skoða sérstaklega hlutverk starfendarannsókna í því ferli. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að til að koma auga á og vinna með eigin viðhorf þarf að 1) nýta rannsóknarferlið til að efla eigin skynfæri, að taka eftir ofur hversdagslegum atvikum innan skólaumhverfisins, hlusta eftir því sem sagt er, taka eftir því sem gert er og veita eigin líðan og tilfinningum í kennslu athygli; 2) að læra að nýta fræðilegar áherslur til að skoða atburði í starfi frá ólíku sjónarhorni; 3) að nýta eigin ígrundanir til að skapa lærdómsferli innan kennslustofunnar sem byggir á tungumála- og menningarauðlindum nemenda; og 4) að skrifa um þessa reynslu.