Fjölmenning: kennsluhættir og frístund

Kennarar sem skapa námsrými fyrir alla í fjölbreyttum nemendahópum og fjölmenningu

Jóhanna Karlsdóttir, lektor, MVS HÍ

Á tímum aukins flótta fólks á milli landa er nauðsynlegt að vita meira um hvernig kennarar í grunnskólum bregðast við námi og kennslu í fjölbreyttum nemendahópum og fjölmenningu. Með rannsókninni eru aðferðir kennara í sex grunnskólum á Íslandi, sem beita fjölbreyttum náms- og kennsluaðferðum til að koma til móts við alla nemendur, skoðaðar og kynntar. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvernig kennarar bregðast við fjölbreyttum nemendahópum og fjölmenningu og skipuleggja nám og kennslu allra nemenda í menntun fyrir alla. Kastljósinu var einkum beint að börnum flóttamanna og þeirra sem hafa beðið um alþjóðlega vernd ásamt nemendum með íslensku sem annað tungumál. Rannsóknarspurning: Hvað einkennir skipulag náms og kennslu hjá kennurum sem skapa námsrými fyrir alla í fjölbreyttum nemendahópum og fjölmenningu? Aðferðafræði: Í rannsókninni var eigindlegum rannsóknaraðferðum beitt. Gögnum var safnað með vettvangsathugunum og hálf-opnum viðtölum við 41 kennara í sex grunnskólum sem valdir voru með markmiðabundnu vali. Gagnaöflun fór fram árið 2021. Niðurstöður benda til þess að kennarar leggja aukna áherslu á sjónræna þáttinn í námi og kennslu þannig að nemendur skilji og muni viðfangsefnin og hugtök tengd þeim. Það gera þeir með aukinni áherslu á verklega kennslu og fjölbreytt viðfangsefni. Einnig kemur fram að kennarar sem tóku þátt í rannsókninni leggja aukna áherslu á samvinnu nemenda, samhjálp og samskipti. Álykta má að niðurstöðurnar nýtist kennurum og skólum til að vinna að skólaþróun og skipulagi náms og kennslu með hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi, ekki síst nemendum sem hafa íslensku sem annað mál.

Tengsl, þátttaka og virkni barna og unglinga í Breiðholti

Eyrún María Rúnarsdóttir, lektor, MVS HÍ

Rannsóknir benda til þess að börn og unglingar með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn séu líklegri til að vera félagslega einangruð, útilokuð eða jaðarsett en jafnaldrar þeirra. Aðstæður í skólahverfi geta haft umtalsverð áhrif á það hvers konar tengsl myndast milli barna, til dæmis þeirra sem eru af ólíkum uppruna. Að sama skapi eru víða tækifæri í umhverfi barna til að ýta undir félagsleg tengsl, samfélagslega þátttöku og virkni þeirra til að mynda í íþrótta- og frístundastarfi. Í erindinu verður brugðið upp svipmyndum í tengslum við tilraunaverkefnið Frístundir í Breiðholti. Verkefninu var hleypt af stokkunum haustið 2020 til að auðvelda nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn félagslega þátttöku og auka íslenskunotkun og samfélagslega virkni þeirra. Tekin voru alls níu viðtöl við framkvæmdaaðila verkefnisins og börn sem stunda frístundir í Breiðholti. Sjónum verður annars vegar beint að sýn framkvæmdaaðila á tilgang og gagnsemi úrræðisins fyrir aukna þátttöku og virkni barna og unglinga og sýn barna á þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Brýnt er að tryggja aðgengi og virka þátttöku barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn að samfélaginu enda getur sú þátttaka skilið á milli þess hvort þeim er búin staða á jaðri samfélagsins eða félagsauð og tengsl sem endurspegla virka þátttöku og áhrif í íslensku samfélagi til jafns við aðra.

Gripið til eigin ráða: Gagnrýnin ígrundun mæðra á menningarbakgrunni sínum í tengslum við þáttaskil leik- og grunnskóla

Björn Rúnar Egilsson, aðjúnkt, MVS HÍ

Þáttaskil leik- og grunnskóla eru almennt talin fela í sér margvíslegar umbreytingar og áskoranir fyrir foreldra. Uppeldishlutverk foreldra, ábyrgð þeirra og sjálfsmynd tekur breytingum og ný sambönd myndast innan grunnskólasamfélagsins. Þó er lítið vitað um reynslu foreldra barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn af þessum tímamótum og um viðhorf foreldranna til þeirra. Í þessu erindi verður könnuð reynsla tveggja mæðra barna sem hafa slíkan tungumála- og menningarbakgrunn af flutningi barna þeirra úr leikskóla í grunnskóla. Þátttakendum var boðið í fjögur hálfstöðluð viðtöl á 12 mánaða tímabili frá því að börn þeirra voru að ljúka leikskólagöngu sinni og allt til loka fyrsta árs grunnskólagöngunnar. Frásagnargreiningu var beitt á gögnin, sem fól í sér að hlusta gaumgæfilega á hljóðupptökur og skipta frásögnum mæðranna í stönsur. Frásagnirnar voru einnig skoðaðar í ljósi hugmynda Paulo Freire um gagnrýna ígrundun. Niðurstöðurnar benda til þess að afskipti mæðranna af íslensku skólakerfi hafi orðið til þess að þær hafi gripið til sinna ráða þegar þeim fannst skólayfirvöld ekki taka áhyggjur þeirra af velferð barnanna alvarlega. Þessi reynsla vakti þær enn fremur til gagnrýninnar ígrundunar á menningarbakgrunni þeirra og þeim gildum sem haldið var að þeim í æsku. Í gögnunum er að finna vísbendingar um að mæðurnar hafi að mestu leyti þurft að takast á við þessar áskoranir á eigin spýtur og að tækifæri til samráðs við skólayfirvöld hafi ekki nýst sem skyldi.

Vefurinn tengjumst.hi.is til að styðja foreldra grunnskólabarna af erlendum uppruna

Kristín Jónsdóttir, dósent, MVS HÍ

Markmiðið með vefnum tengjumst.hi.is er að efla foreldra af erlendum uppruna í að styðja við menntun barna sinna. Vefurinn á líka erindi við grunnskólakennara, stjórnendur og fleiri fagaðila sem vilja kynna sér og geta vísað á gott fræðsluefni um tengsl heimila og skóla. Tilgangur þessa erindis er að kynna vefinn og þá kennslufræðilegu sýn sem hann þjónar. Á vefnum eru nú birt fjögur meistaraverkefni nemenda í kennara- og stjórnendanámi sem unnin voru skólaárið 2020-21 við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Nemendurnir unnu saman og hver fyrir sig að fjórum myndböndum. Myndböndin voru framleidd á arabísku, íslensku, pólsku og spænsku, ásamt tilheyrandi fræðsluefni. Verkefnin eru Samskipti heimila og grunnskóla á Íslandi eftir Valdimar Unnar Jóhannsson, Samstarf heimila og skóla um nám og góða líðan grunnskólabarna eftir Dagmar Ólafsdóttur, Þátttaka foreldra í íslenskunámi og lestrarþjálfun barna sinna eftir Stefaníu Láru Ólafsdóttur og Réttindi og skyldur foreldra vegna skólagöngu barna sinna eftir Láru Bergljótu Jónsdóttur. Í erindinu verður fjallað um kennslufræðilegar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð myndbandanna og reifað hvaða kennslufræðilega sýn þau mynda og vefurinn birtir. Þá verða notkunarmöguleikar vefsins kynntir og sagt frá næstu skrefum við þróun hans; að talsetja myndböndin á úkraísku og kynna þau. Tengjumst-verkefnið hlaut styrk við fyrstu úthlutun úr sjóði Háskóla Íslands sem ætlaður er til að efla virka þátttöku vísindamanna í samfélaginu í krafti rannsókna og sérþekkingar.