Fararheill: Samfella í námi barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn

Háskóli Íslands

Fararheill: Samfella í námi barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

RannUng

Jóhanna Einarsdóttir

Að fara út fyrir þægindarammann: Viðtöl við stjórnendur leik- og grunnskóla og forstöðumenn frístundaheimila

Arna H. Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að öðlast þekkingu á hvernig leik- og grunnskólastjórar og forstöðumenn frístundaheimila vinna að grunnþættinum jafnrétti á mörkum skólastiga hvað varðar fjölmenningarlega menntun. Grunnþátturinn er sameiginlegur í námskrám allra skólastiga og í stefnu um frístundaheimili. Gagna var aflað með viðtölum við skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og forstöðumenn frístundaheimila, alls 11 stjórnendur í níu stofnunum, þ.e. tveimur leikskólum, tveimur grunnskólum, tveimur sameinuðum leik- og grunnskólum og þremur frístundaheimilum. Hlutfall barna af erlendum uppruna var misjafnt í skólum og á frístundaheimilum. Auk þemagreiningar var tekið mið af hugmyndafræði „pedagogy of discomfort“ (að fara út fyrir þægindarammann) við greiningu gagnanna. Niðurstöður gefa til kynna að þar sem menningarlegur margbreytileiki bankaði á dyr stjórnenda þá brugðust þeir við honum. Skólagerð virtist ekki ráða þáttaskilum og samfellu í menntun barnanna heldur viðhorf, áherslur í samvinnu og ástríða skólafólksins til að gera vel. Þar sem skólastjórnendur og forstöðumaður frístundar þróuðu faglegt lærdómssamfélag með samstarfsfólki, m.a. með þróunarverkefnum, töluðu um teymisvinnu og dreifingu ábyrgðar virtust börnin finna minna fyrir þáttaskilunum og samfellan var meiri. Þar sem starfsfólk og stjórnendur höfðu farið „út fyrir þægindarammann“ gekk starfið mun betur en ella og breytingaforysta réði ríkjum. Rannsóknin styður við niðurstöður fleiri rannsókna um að viðhorf fólks skipta miklu þegar um fjölmenningarlega menntun er að ræða.

Að tilheyra (ekki) leikskólasamfélagi: Viðhorf foreldra

Björn R. Egilsson, doktorsnemi, MVS, HÍ

Nýlegar rannsóknir hafa lýst menntastofnunum yngri barna á þá vegu að þær búi yfir möguleikum til þess að ýta undir samfélagslega samheldni með því að bjóða upp á vettvang þar sem fjölskyldur með fjölbreyttan bakgrunn geti komið saman. Hins vegar er óljóst með hvaða hætti það á sér stað í hversdagslegum aðstæðum. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á þessum ferlum með því að kanna hvort og hvernig foreldrar barna með menningarlega, tungumálalega og félagslega fjölbreyttan bakgrunn upplifi að þeir tilheyri leikskólasamfélagi við tvo samstarfsleikskóla í ólíkum hverfum í Reykjavík. Rannsóknin var samþykkt af hálfu samstarfsleikskólanna, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands auk foreldranna sjálfra, sem fengnir voru til þátttöku í foreldraviðtali. Hálfstöðluð viðtöl voru tekin við 12 foreldra um veru barns þeirra í leikskólanum og tengslum þeirra við börn, kennara og fjölskyldur leikskólasamfélagsins. Niðurstöðurnar benda til þess að þótt viðhorf foreldranna sem tóku þátt í rannsókninni til leikskólans séu almennt jákvæð, eru tilfinningar þeirra gagnvart því að tilheyra leikskólasamfélaginu blendnar af ýmsum ástæðum. Á meðan sumir foreldrar nýta vettvang leikskólans til þess að tengjast öðrum fjölskyldum og njóta góðs af samstarfi við þær, eiga aðrir í yfirborðskenndum samskiptum og enn aðrir halda sig fjarri og draga skýr mörk á milli leikskóla og einkalífs. Frekari rannsóknir og stefnumótun um áhrif leikskóla á samfélagslega samheldni þurfa að taka með í reikninginn að hluti foreldra sé fráhverfur hugmyndinni um að tilheyra leikskólasamfélaginu.

Ytri áhrifaþættir á kennslu barna með fjölbreyttan menningarbakgrunn

Friðborg Jónsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ. Leiðbeinandi: Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að koma auga á utanaðkomandi þætti sem hafa áhrif á hvernig kennarar takast á við kennslu barna með erlendan bakgrunn í íslenska skólakerfinu en vísbendingar eru um að kennarar upplifi sig óundirbúna til að takast á við menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þær kenningar sem liggja til grundvallar rannsókninni eru kenningar um örpólitík (e. micropolitics) í menntun, starfsþróun kennara og fjölmenningarlegir kennsluhættir. Frá janúar 2019 til vors 2020 var unnin „praxeology“-rannsókn með tveimur leikskólakennurum og tveimur grunnskólakennurum í einum leikskóla og einum grunnskóla í Reykjavík. Auk þess voru tekin viðtöl við skólastjórana í skólunum tveimur, rýnt í opinber gögn og rætt við yfir tug fagfólks á vegum sveitarfélagsins sem aðkomu hafa að málefnum barna með erlendan bakgrunn í leik og grunnskólum. Þemagreining var notuð til þess að greina gögnin. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að fagfólk sveitarfélagsins upplifi þjónustuna við börnin og skólana nokkuð dreifða og samstarf þeirra aðila er að henni koma ekki alltaf nægilegt. Kennarar leita aðstoðar innan skólanna og vilja sjá fleiri sérkennslutímum úthlutað til barnanna en leita síður aðstoðar utan skólanna fyrir sjálfa sig. Samband kennaranna við skólastjórann hefur áhrif á viðhorf þeirra varðandi kennslu barna með fjölbreyttan menningarbakgrunn og í grunnskólanum rennur kennsla þessara barna að einhverju leyti saman við sérkennslu.

Viðhorf leikskólakennara og leiðbeinenda til upphafs leikskólagöngu barna

Hrönn Pálmadóttir, dósent, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf og reynslu leikskólakennara og leiðbeinenda í leikskóla af samstarfi við foreldra- og barnahóp með fjölbreyttan bakgrunn og menningu í upphafi leikskólagöngu. Fræðileg undirstaða rannsóknarinnar er aðallega sótt í smiðju þeirra sem hafa rannsakað þáttaskilin sem verða þegar börn hefja grunnskólagöngu. Litið er á börn sem mikils megnug og skapandi og námsumhverfi og námskrá skuli byggjast á áhuga og aðstæðum barna og taka tillit til þess að þau eru ólík. Tímamótin við upphaf leikskólagöngu eru kölluð aðlögun og er þar vísað til inntöku nýrra barna í leikskóla. Börn yngri en tveggja ára hófu leikskólagöngu sína á þremur deildum haustið sem rannsóknin hófst. Gagna var aflað með einstaklingsviðtölum og rýnihópaviðtölum við fimm leikskólakennara og þrjá leiðbeinendur auk vettvangsathugana á deildum. Þemagreining var notuð til að greina gögnin. Niðurstöður sýna að leikskólakennarar lýstu hlutverki sínu í aðlögunarferlinu sem tvíþættu. Annars vegar því að koma á og viðhalda tengslum við foreldra og börn. Hins vegar að hafa yfirsýn, ýta undir samstarf innan deilda og miðla þekkingu til samstarfsfólksins. Leiðbeinendur ræddu um virka þátttöku í aðlögunarferlinu og í samskiptum og tengslum við foreldra barnanna. Fram komu vísbendingar um að foreldrar af erlendum uppruna ættu frekar í erfiðleikum með þátttöku og að börnin upplifðu í mörgum tilvikum erfiðari aðlögun en börn íslenskra foreldra. Rannsóknin sýnir að það er fagleg áskorun að þróa starfshætti sem ýta undir menningarlega samfellu og stuðla að því að barnið og fjölskylda þess upplifi sig sem þátttakendur og að þau tilheyri nýja umhverfinu.

Fullgildi barna með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskum leikskólum

Sara M. Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar er að bæta við þekkingu um hvernig börn með fjölbreyttan bakgrunn upplifa fullgildi (e. belonging) í íslenskum leikskólum. Gengið var út frá hugmyndafræði bernskurannsókna og líkan Lundy notað við túlkun niðurstaðna. Rannsóknin var framkvæmd á leikskóladeild þar sem dvöldu saman 19 börn og fjórir starfsmenn. Níu börn völdu að taka þátt eftir að hafa fengið leyfi frá foreldrum og útskýringar á hvað þátttakan fæli í sér. Einnig voru könnuð viðbrögð starfsfólks leikskólans við sjónarmiðum barnanna. Börnin tóku myndir á spjaldtölvur sem notaðar voru sem kveikja að samræðu um fullgildi þeirra í leikskólanum. Notuð var þemagreining til þess að greina samtölin við börnin en meginþemun voru: Vinátta, leikur, sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni. Í hugum barnanna tengdist fullgildi aðallega vináttutengslum þeirra við önnur börn í leikskólanum. Börnin tengdu vináttu við leik, þau léku sér frekar við börn sem höfðu svipaðan tungumála- og menningarbakgrunn og þau sjálf. Börn með annan bakgrunn en íslenskan voru frekar útilokuð frá leik en börn með íslenskan bakgrunn. Börnin, sem tóku þátt, voru sjálfstæð og sjálfbjarga í daglegu starfi leikskólans og leituðu ekki til starfsfólksins eftir stuðningi þegar eitthvað bjátaði á, þau drógu sig frekar í hlé. Starfsfólkið ígrundaði starfshætti sína út frá sjónarmiðum barnanna og hafði ýmsar hugmyndir um fullgildi þeirra. Þær hugmyndir virtust þó ekki endurspeglast í starfsháttum þeirra. Draga má þá ályktun af þessari rannsókn að umræðan um hvernig styðja megi við fullgildi barna með fjölbreyttan bakgrunn sé komin stutt á veg í leikskólasamfélaginu og úr því þurfi að bæta.