Faggreinakennsla 

Kl. 13:40-15:10

Meyvant Þórólfsson

 

Tilgangur og gildi náttúruvísindamenntunar barna og unglinga

Haukur Arason, dósent, MVS HÍ og Meyvant Þórólfsson, dósent, MVS HÍ 

Rakin verða og metin rök og álitaefni sem varða tilgang og gildi náttúruvísindamenntunar barna og unglinga en helstu slíkum rökum má skipta í eftirfarandi flokka: a) Hagnýtt gildi. Tækni- og vísindaþekking tengist daglegum störfum í nútímasamfélagi, er forsenda ýmissa persónulegra ákvarðana og ræður möguleikum á ýmsum eftirsóknarverðum störfum. b) Hagrænt gildi. Samfélagið hefur þörf fyrir menntað fólk á öllum sviðum vísinda og tækni. Því er mikilvægt að efla áhuga og þekkingu æskunnar á náttúruvísindum frá upphafi skólagöngu. c) Menningarlegt gildi. Vísindaleg þekking, uppfinningar og uppgötvanir, eru mikilvægir þættir í sögu menningar okkar og þróun vísindalegrar hugsunar og vísindalegra aðferða eru meðal merkustu afreka mannkynsins. d) Lýðræðislegt gildi. Vísinda- og tækniþekking er forsenda fyrir upplýstri þátttöku allra þjóðfélagsþegna í mikilvægum málaflokkum og forsenda almennrar þátttöku í gagnrýninni umræðu um umhverfismál, sjálfbæra þróun og mögulegar falsfréttir sem tengjast náttúruvísindalegum viðfangsefnum. e) Gildi fyrir nýsköpun og tækniþróun. Skilningur stjórnmálamanna, almennings og sérfræðinga skipta máli fyrir þróun vísinda, tækni og nýsköpunar og varðar okkur öll, ekki einungis sérfræðingana. Náttúruvísindamenntun snýst einnig um félagslegt réttlæti þar sem hún hefur gildi bæði fyrir sérhvern einstakling og fyrir samfélagsleg álitamál. Allir samfélagshópar þurfa aðgang að þeirri þekkingu. Mikilvægi náttúruvísinda og tækni hefur sjaldan verið meira og mun velferð samfélaga markast af þekkingu á þessum sviðum í framtíðinni. Má nefna að viðbrögð við heimsfaröldrum svo sem COVID-19, viðbrögð við loftslagsbreytingum, nýjar lausnir varðandi orkuvinnslu og nýtingu, og hæfni til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna, byggja á slíkri þekkingu.  

 

Hversdagshugmyndir íslenskra unglinga um bylgjur á streng og yfirborði vatns

Baldvin Ingimar Baldvinsson, meistaranemi, MVS HÍ og Haukur Arason, dósent, MVS HÍ 

Bylgjur og bylgjueiginleikar eru mikilvæg fyrirbæri sem hafa mikið gildi í vísindum og tækni og snerta daglegt líf fólks. Í þessu erindi verður fjallað um rannsókn á hversdagshugmyndum íslenskra unglinga um bylgjur á streng og yfirborði vatns og niðurstöðurnar settar í samhengi við erlendar rannsóknir, en skilningur á slíkum bylgjum skiptir máli varðandi skilning á almennum bylgjufyrirbærum. Hversdagshugmyndir (eða forhugmyndir) barna og unglinga um hin ýmsu fyrirbæri náttúruvísinda hafa mikið verið kannaðar á alþjóðavettvangi en hugmyndir þeirra um bylgjur á streng og yfirborði vatns hafa mun minna verið skoðaðar en mörg önnur fyrirbæri. Hér á landi hefur lítið verið gert af rannsóknum af þessu tagi. Til að fá innsýn í hversdagshugmyndir íslenskra unglinga um bylgjur á streng og yfirborði vatns var gerð könnun meðal unglinga í litlu bæjarfélagi hér á landi, bæði með viðtölum og spurningalista sem útbúinn var í þeim tilgangi og innihélt níu spurningar. Alls svöruðu 43 nemendur spurningalistanum og voru tekin fimm viðtöl við alls átta viðmælendur til að rýna enn frekar í þeirra hugmyndir um viðfangsefnið. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að sumir nemendur eiga í erfiðleikum með að aðskilja hreyfingu efnisins og hreyfingu bylgju. Einnig virðist lítill skilningur meðal sumra unglinganna á sérstökum bylgjufyrirbærum eins og samliðun. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda því sterklega til þess að í kennslu beri að leggja áherslu á að aðgreina hreyfingu efnisins og hreyfingu bylgjunnar og eru þessar niðurstöður gagnlegar fyrir náttúrufræðikennara, námsefnishöfunda og þá sem semja námskrár.