Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi – Seinni hluti

Háskóli Íslands

Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi – Seinni hluti

2. október kl. 10:45 til 12:15Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

RASK og RANNUM

Svanborg R. Jónsdóttir

Sköpunarsmiðjur og samspil við námsgreinar grunnskólans

Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ

Talsmenn sköpunarsmiðja í skólastarfi telja að þær eigi skýrt erindi í skólastarf og geti eflt samstarf, lausnaleit og skapandi hugsun nemenda. Í erindinu verður farið yfir þá kennslufræðilegu sýn sem birtist á fyrsta ári í verkefninu Austur-Vestur. Byggt er á viðtölum við verkefnisstjóra, kennara, vefsíðu verkefnisins og Facebook-hóp. Skoðað er hvernig verkefnið hefur verið kynnt og unnið með það fyrir augum að svara því hvaða erindi sköpunarsmiðjur eigi í skólastarf. Í ljós kemur þegar gögnin eru skoðuð að áherslan á stafræna tækni er töluverð í því efni sem í boði hefur verið í menntabúðum og kennarar hafa nýtt sér. Þar má nefna vinnu með green screen og forritanleg smátæki. Skapandi verkefni með efnivið eins og rafrásir, pappa og verðlaust efni hlutu líka góðar undirtektir og voru nýtt í skólunum. Verkefnin sem kennarar skipulögðu fyrir nemendur sína voru allt frá því að vera stutt einstaklingsverkefni sem tengdust einni eða fáum kennslugreinum upp í heildstæð samþætt verkefni sem stóðu yfir í nokkrar vikur. Stýring verkefnanna er líka breytileg; frá kennarastýrðum verkefnum með eina mögulega lausn yfir í opin lausnaleitarverkefni. Ljóst er að þeir kennarar sem deildu vinnu sinni hafa verið hugmyndaríkir við að flétta skapandi vinnu við vinnu með ýmsar námsgreinar og að sköpunarsmiðjur eiga fullt erindi í grunnskólana þó ærið verkefni sé að finna þeim rými og tilgang.

Þemavinna í Ingunnarskóla

Hjalti Einar Sigurbjörnsson, Ellen Alfa Högnadóttir, Guðbjörg Bjarnadóttir og Sigríður Rafnsdóttir, grunnskólakennarar í Ingunnarskóla

Í Ingunnarskóla eru náttúrufræði og samfélagsgreinar kenndar í svokölluðum þemum sem geta staðið í tvær til sex vikur, allt eftir umfangi verkefna. Mikið er lagt upp úr hópavinnu, meðal annars með stöðvavinnu og hringekju en fyrirkomulagið er misjafnt eftir því hvaða þema er í gangi. Boðið er upp á fjölbreytt viðfangsefni og gefst nemendum færi á mismunandi útfærslum á verkefnum og vinnuaðferðum. Samvinna er við list- og verkgreinakennara í þemum og alltaf er leitast við að samþætta sem mest. Reynt er að mæta nemendum eftir áhugasviði og getu þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Þemu sem unnið er með í 5. bekk eru Hafið, Jörð í alheimi, Landið mitt Ísland, Landnám Íslands og Vinátta. Kennarar við Ingunnarskóla kynna skipulagningu þemavinnu og þróun hennar undanfarin ár, hvaða hæfni var unnið með og draga ályktanir af reynslunni um hverjar voru helstu áskoranir og ávinningur við að vinna á þennan hátt.

Austur-Vestur sköpunarsmiðjur: Hálfnað verk þá hafið er

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Sköpunar- og snillismiðjur (e. makerspaces) byggja á þeirri hugmynd að ýta þurfi undir sköpun og margvíslega hæfni með stuðningi stafrænnar tækni. Í forgrunni eru kenningar uppeldisfræðinga svo sem Dewey, Papert og Freire, sem töldu að skapa þyrfti skilyrði þar sem nemendur gætu nýtt áhuga sinn og reynslu og þroskað í verki. Rannsóknin beinist að því að skoða hvaða þættir höfðu áhrif á innleiðingu og þróun verkefnisins og hvaða uppeldis- og kennslufræði birtist í starfsemi sköpunarsmiðjanna. Niðurstöður fyrsta hluta rannsóknarinnar byggja á viðtölum við skólastjórnendur, verkefnastjóra og kennara, ásamt vettvangsathugunum. Í erindinu verður fjallað um ýmsa þætti sem helst hafa haft áhrif á innleiðingu og þróun sköpunarsmiðjanna í skólunum þremur, hvað styður hana, hvað hindrar og hvaða ávinningur virðist af henni fyrir nemendur, kennara og skólastarfið. Rædd verða tengsl hugsjóna og markmiða við framkvæmd, tengsl áhuga, breytingavilja, kennsluhátta, skipulags og möguleika til framkvæmdar, hlutverk húsnæðis og tækni í þróun kennsluhátta, hvernig atbeini kennara (e. agency), samstarf og stuðningur við verkefnið spila saman. Einnig verður fjallað um það lærdómssamfélag sem hefur skapast við þessar aðstæður og möguleika þess til að verða drifkraftur þróunar. Dregnar verða ályktanir um tækifæri í augsýn og varpað fram hugmyndum fyrir starfið framundan.