Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi – Fyrri hluti

Háskóli Íslands

Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi – Fyrri hluti

2. október kl. 9.00 til 10.30 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Þróunarverkefnið Austur-Vestur: Sköpunar- og tæknismiðjur

Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Á vormánuðum 2019 fékk þróunarverkefnið Austur-Vestur – Sköpunar- og tæknismiðjur í Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla og Selásskóla, styrk úr Þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, Látum draumana rætast. Verkefnið, sem hófst formlega haustið 2019, er hugsað til þriggja ára með þátttöku allra kennara í skólunum þremur og var fyrsta árinu nú að ljúka. Stór þáttur í verkefninu er að hanna og þróa vettvang, svokallaðar sköpunarsmiðjur (e. makerspaces) sem gefa munu tækifæri til fjölbreyttra kennsluhátta og margbreytilegrar vinnu þar sem nemandinn er í forgrunni. Hópur rannsakenda frá RASK og RANNUM á Menntavísindasviði hefur sinnt ráðgjöf við skólana og safnað gögnum um þróunarstarfið. Gögnum var safnað með vettvangsathugunum á fundum verkefnisstjórnar og í menntabúðum auk þess að tekin voru viðtöl við kennarateymi, verkefnisstjóra og skólastjóra í hverjum skóla. Einnig er byggt á styrkumsókn verkefnisins, vefsíðu verkefnisins og Facebook-síðu Austur-Vestur. Tilgangurinn er að fylgjast með þróun verkefnisins og greina einkenni og áhrifaþætti. Rannsóknarhópurinn hefur rýnt í gögnin og byggir á eigindlegri nálgun og frásagnarrýni (e. narrative inquiry). Í málstofunni verða kynntar fyrstu niðurstöður varðandi greiningu gagnanna, sagðar rýnisögur um þemu sem birtust og sýnd dæmi um þróunarstarfið. Þemun falla í eftirtalda flokka: Samstarfsverkefnið Austur-Vestur – Sýn á verkefnið og tækifæri í starfi þriggja skóla, Áhugi, breytingavilji og hindranir, Sköpunarsmiðjur og samspil við námsgreinar grunnskólans og Hálfnað verk þá hafið er. Í málstofunni lýsa rannsakendur í rannsóknarhópnum niðurstöðum út frá ofantöldum flokkum og kennarar úr skólunum þremur segja dæmisögur af starfi sem fellur undir markmið sköpunarsmiðjanna.

Samstarfsverkefnið Austur-Vestur – Sýn á verkefnið og tækifæri í starfi þriggja skóla

Torfi Hjartarson, lektor, MVS, HÍ

Áhugi á stafrænni tækni í skólastarfi hefur gengið í bylgjum frá því að fyrst var farið að nota tölvur í skólum. Ný fartækni hefur á seinni árum endurvakið og eflt til muna þennan áhuga skólafólks, forritun er myndrænni en áður var, forritanlegur búnaður til nota við leik og nám hefur verið í mikilli þróun og hvers konar hönnun með hjálp stafrænnar tækni vaxið hröðum skrefum. Spjaldtölvur og skyldur búnaður hafa sett mark sitt á skólastarf og tekið er að gæta mikils áhuga á tækninni sjálfri, forritun, leik og hönnun þar sem reynir á stafræna tækni í bland við aðrar leiðir til sköpunar. Hér verður dregið fram hvernig þessi áhugi birtist í samstarfi skólanna þriggja sem standa að verkefninu Austur-Vestur, lýst þeim hugsjónum eða hugmyndum sem þar liggja að baki með hliðsjón af umsóknargögnum, heimsóknum í skólana þrjá, áherslum í menntabúðum og viðtölum við kennarateymi, verkefnastjóra og skólastjórnendur sem leiða verkefnið. Með verkefninu er brugðist við ákalli eftir námsumhverfi sem stuðlar að aukinni færni til nýsköpunar og lausnaleitar og leitast við að þróa kennsluhætti í takt við nýja tíma. Ýta á undir fjölbreytni í námi, flæði milli námsgreina, viðfangsefni tengd daglegu lífi nemenda, áhuga og margbrotna færni. Greint verður frá sýn leiðtoga á verkefnið og jafnframt dregin fram mikilvæg sérkenni skólanna þriggja hvað snertir skólagerð, áherslur í kennsluháttum og áhugaverða möguleika fólgna í húsakynnum og breytingum á þeim þegar finna á starfi í anda sköpunarsmiðja stað í skólastarfinu.

Vesturbæjarskóli – Hönnun og tækni – Nýsköpun

Arna Björk H. Gunnarsdóttir, grunnskólakennari, Vesturbæjarskóli og Guðrún Linda Sverrisdóttir, grunnskólakennari, Vesturbæjarskóli

Skólaárið 2019–2020 voru nokkur sköpunarverkefni í gangi í Vesturbæjarskóla, meðal annars Hönnun og tækni í 3. bekk og hins vegar Nýsköpun í 5. og 6. bekk. Í erindinu verður sagt frá framkvæmd verkefnanna í kennslu og hvernig til tókst. Hönnun og tækni: Verkefni 3. bekkjar var tilraunaverkefni, svokallað STE(A)M (Science, Technology, Engineering, Art, Math). Unnin voru verkefni vikulega, 80 mínútur í senn. Áhersla var lögð á alla þessa þætti auk sköpunar þar sem unnið var með samvinnu, hlustun, lausnir og prófanir. Einnig voru umræður fyrir og eftir tímana og skýrslugerð um hvert verkefni. Nýsköpun: Nemendur komu í nokkra tíma í senn og unnu að hugmyndum til að senda í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Markmið kennslunnar var að fá nemendur til að hugsa í lausnum og skila af sér hugmyndum. Nemendur fundu þörf eða vandamál og leystu úr því á sinn hátt með því að greina vandamálið, finna markhóp og lýsa hugmynd sinni í máli og myndum. Höfundar álykta að nemendur hafi fengið fjölbreytt tækifæri til skapandi hugsunar og tekist hafi að búa þeim vettvang til að prófa og takast á við margbreytileg viðfangsefni sem reyna á hæfni þeirra og hugvit.

Austur-Vestur, sköpunarsmiðjur. Áhugi kennara, breytingavilji og hindranir

Svala Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Í þróunarverkefnum getur kennurum reynst erfitt í upphafi að finna leiðir til að tengja nýja kennsluhætti skólastarfinu. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir kostum sem kennarar töldu að þróunarverkefnið Austur-Vestur gæti haft í för með sér og hindrunum sömuleiðis. Tekin voru hálfopin viðtöl við tvö kennarateymi frá hverjum skóla og voru tveir til þrír kennarar í hverju teymi, kennarar sem unnu þétt saman í kennslu og kennsluundirbúningi sama árgangs. Niðurstöðurnar sýna viðhorf kennara til sköpunarsmiðjustarfsins, væntingar, helsta ávinning og hvernig æskilegast sé að innleiða og þróa sköpunarsmiðjurnar. Áhugi kennaranna var mismikill. Sumir kennaranna höfðu töluverða reynslu af sköpunarstarfi og áhugi þeirra var til staðar fyrir. Aðrir höfðu talsverða þekkingu og reynslu af tækni, höfðu sótt námskeið, og voru áhugasamir um hana. Ekki höfðu allir þessa sömu reynslu og þekkingu og óx þeim verkefnið frekar í augum. Kennurunum virtist þó almennt þykja viðfangsefnið spennandi. Þeir töldu nemendur áhugasama um að vinna skapandi verkefni og með ýmsan tæknibúnað. Sköpunarsmiðjur byðu upp á tækifæri til að vera með fjölbreyttar kennsluaðferðir og verkefni sem þessi reyndu á að börn leituðu eigin lausna. Sumir kennarar sögðu að ákvarðanir um þátttöku í þróunarverkefnum kæmu að ofan. Í einum skólanna fréttu kennarar mjög seint af verkefninu. Fjöldi þróunarverkefna var misjafn eftir skólum. Kennararnir töldu hvatningu stjórnenda mikilvæga og að vinnu þeirra væri sýndur áhugi. Margir kennarar voru óvissir um hvaða aðstoð þeir ættu kost á og kölluðu eftir meiri aðstoð við innleiðingu sköpunarsmiðja varðandi tækni, að einhver kæmi inn í upphafi og ynni með þeim.

Padlet sem virkt vinnutæki í kennslu og námi í 4. bekk í Selásskóla

Bergljót Bergsdóttir, grunnskólakennari, Selásskóli

Í verkefninu var unnið með fjölbreytta hæfni: Að nýta rafrænt námsefni, frumkvæði og samvinnu, nýta fjölbreyttar aðferðir með tæknibúnaði, upplýsingatækni og forritum, m.a. við myndvinnslu og miðlun þekkingar. Í Selásskóla höfðu nemendur í þriðja bekk kynnt á veggspjöldum bækur sem þeir mæltu með. Þegar allir nemendur fjórða bekkjar fengu iPad (spjaldtölvu) fannst mér kjörið tækifæri til að nota tæknina til að halda þessu bókakynningaverkefni gangandi. Var mér þá bent á Padlet. Ég gerði tilraun með mínum umsjónarnemendum í fjórða bekk og hver nemandi mælti með einni bók. Nemendum fannst þetta skemmtilegt og gerðum við því nýjan vegg þar sem hver fékk sína „hillu”, þau gátu skrifað um bók um leið og þau voru búin að lesa hana og hin gátu séð hvort mælt var með bókinni. Til þess að komast inn á „vegginn” notuðu nemendur qr-kóða og hékk hann uppi á vegg stofunnar. Þegar samgöngubann skall á og nemendur voru skemmri tíma í skólanum ákváðum við (ég og nemendur) að búa til nýjan vegg þar sem við settum myndir af því sem við vorum að gera, bæði í skólanum og utan skólans. Þá gátu þau sem ekki voru í skólanum fylgst með. Þetta gekk vel og nemendur sýndu áhuga og virkni. Lestraráhugi var áberandi mikill í hópnum og lásu nemendur margar ólíkar bækur. Það að nemendur áttu greiðan aðgang að upplýsingum frá hver öðrum um áhugaverðar bækur hafði greinilega hvetjandi áhrif á lestur og lestraráhuga þeirra. Ég tel að Padlet geti nýst fyrir alla aldurshópa og við margs konar verkefni og skapandi vinnu.