Danska: Námsefni og jaðarsettur nemendahópur

Háskóli Íslands

Danska: Námsefni og jaðarsettur nemendahópur

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Íslandsdeild SPRoK

Þórhildur Oddsdóttir

EKKO – Samsetning og tíðni orðaforða

Þórhildur Oddsdóttir, aðjúnkt, HUG, HÍ og Brynhildur Ragnarsdóttir, þátttakandi í rannsóknarteymi SPRoK

SPRoK er þriggja ára Nordplus samvinnu- og rannsóknarverkefni, þar sem sjónum er meðal annars beint að orðaforða í námsgögnum í dönsku sem fyrsta, öðru og erlendu máli í vesturnorrænum grunnskólum, sænsku í finnskumælandi skólum og dönsku í annars máls umhverfi í Danmörku. Almennt er farið að gefa meiri gaum að tíðni orða í tungumáli. Svíar, Norðmenn og Danir hafa undanfarin ár haft samvinnu um að þróa rafræna orðabanka til þess að auðvelda rannsóknir. Við tíðnirannsóknir er orðaforðanum skipt upp í 1000 orða knippi. Námsefni í dönsku er samið á Íslandi fyrir íslenska nemendur. Hver er orðaforðinn í námsefninu? Hversu stór hluti orðaforðans tilheyrir 2000 algengustu orðum málsins? Rannsóknir hafa sýnt að vald á 2000 algengustu orðum í tungumáli gerir nemendum kleift að skilja og gera sig skiljanlega í daglegu lífi. Í erindinu verður orðaforði í námsefninu EKKO tekinn til skoðunar. EKKO er námsefni í dönsku sem notað er í efstu bekkjum grunnskóla. Efnið er þemaskipt. Í rannsókninni er sjónum beint að því hve þemabundinn orðaforðinn er, hversu víðtækur hann er og skoðað hversu vel hann hentar til að nemendur geti tileinkað sér orðaforða sem gagnast þeim til þátttöku í samræðum um málefni daglegs lífs annars vegar og áhugamál sín hins vegar. Hversu hentugur er orðaforðinn sem stiklur og uppistaða í orðaneti til að orðaforðinn þróist frá hinu almenna til hins sértæka?

EKKO – Menning og heimsmynd

Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, þátttakandi í rannsóknarteymi SPRoK, Þórhildur Oddsdóttir, aðjúnkt, HUG, HÍ

SPRoK er þriggja ára Nordplus samvinnu- og rannsóknarverkefni, þar sem sjónum er meðal annars beint að orðaforða í námsgögnum í dönsku sem fyrsta, öðru og erlendu máli í vesturnorrænum grunnskólum, sænsku í finnskumælandi skólum og dönsku í annars máls umhverfi í Danmörku. Svo virðist sem námsgögn ákvarði inntak og viðfangsefni þess sem fram fer í dönskutímum og stýri skipulagi og markmiðssetningu kennslunnar. Námsgögn í tungumálum hafa að meginmarkmiði að nemendur taki framförum í munnlegri og skriflegri málnotkun, en námsefnið endurspeglar meðvitað eða ómeðvitað sýn höfunda á samfélag, menningu og sjálfsmynd málnotenda í síkvikum heimi. Í erindinu verður efnisval, textagerðir (d. genrer), menning og heimsmynd í námsefninu EKKO til umfjöllunar. EKKO er námsefni í dönsku sem notað er í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi. Sjónum verður beint að vali á textagerðum; inntaki texta (daglegt líf, samfélag og saga); menningarlæsi og margbreytileika í viðhorfum og lífssögum (d. interkultural) og hvernig umheimurinn birtist í umræddum námsgögnum. Byggt verður á ákvæðum í Aðalnámskrá grunnskóla fyrir erlend tungumál, greiningarlíkani Karen Risager og kennslusýn Sidney-skólans í útfærslu þeirra Johansson og Sandell Ring.

Möguleikar íslenskra nemenda til að þróa áfram færni sína í dönsku í íslenska skólakerfinu

Hrefna Marín Sigurðardóttir, framhaldsskólakennari/stundakennari, Menntaskólinn í Reykjavík

Í erindinu verður gerð grein fyrir rannsókn sem beinist að nemendum sem búið hafa í Danmörku eða í dönsku málumhverfi og eru nú búsettir á Íslandi. Í rannsókn þessari var lögð sérstök áhersla á að kanna möguleika þeirra og tækifæri til að þróa dönskukunnáttu sína í íslensku skóla- og málumhverfi þar sem danska er kennd sem skyldufag. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknaraðferð, þar sem tekin voru viðtöl við fimm nemendur með þessar forsendur og fjóra dönskukennara, haustið 2019. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvað er í húfi þegar þessir nemendur flytja aftur til Íslands og eiga að læra dönsku í íslensku móðurmálsumhverfi. Niðurstöður benda til þess að þessir nemendur upplifi vandkvæði þegar þeir setjast á íslenskan skólabekk og læra dönsku sem „erlent mál“, en færni þeirra og kunnátta í dönsku er oft í líkingu við móðurmálsþekkingu. Þá er margt sem bendir til þess að íslenska skólakerfið nái ekki að mæta þörfum þessa nemendahóps svo reynslan gagnist þeim til frambúðar og áframhaldandi náms í Danmörku. Í erindinu verður lögð áhersla á námsframboð þessa nemendahóps í dönsku hérlendis. Þetta verður rætt með tilliti til hæfni þeirra og áframhaldandi „dannelse“ í dönsku. Í umræðu verður skoðað hvort og hvernig unnt er að mæta þessum nemendahópi sem er, hefur verið og mun ávallt vera til staðar.