COVID-19 og leikskólinn – LeikA

Háskóli Íslands

COVID-19 og leikskólinn – LeikA

1. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

LeikA. Háskólinn á Akureyri

Jórunn Elídóttir

Reynsla starfsfólks leikskóla af COVID-19

Kristín Dýrfjörð, dósent, HA 

Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun og reynslu starfsfólks leikskóla af skólastarfinu á tímum samkomubanns. Gagna var aflað með rafrænni spurningakönnun til starfsfólks leikskóla og alls bárust 658 svör við könnuninni. Í erindinu eru svör við spurningum um starfsaðstæður og líðan starfsfólks skoðaðar. Gerð er grein fyrir þeim áskorunum sem starfsfólk stóð frammi fyrir sem framlínustarfsfólk í miðjum heimsfaraldri. Ljóst er að sumir unnu heima, aðrir mættu alla daga, enn aðrir hluta úr viku og hafði það áhrif á hvernig vinnufyrirkomulag þeirra var. Fjallað er um hvernig starfsfólk skipulagði vinnustaðinn, til dæmis hvernig það skipti leikskólanum í einingar til að mæta þeim ákvæðum og takmörkunum sem sóttvarnalæknir setti. Fram kemur að skipulagið hafði áhrif á alla þætti starfsins, til dæmis bæði fyrirkomulag kaffi- og undirbúningstíma. Greint er frá hvernig komu barna í leikskólann var háttað og þær áskoranir sem fólust í henni fyrir starfsfólk. Helstu niðurstöður eru að starfsfólk var úrræðagott og gerði sitt besta til að halda starfseminni gangandi. Mismunandi var á milli leikskóla hvernig skipulagi var háttað. Sumt starfsfólk fann til kvíða og var misvel búið undir að vera skilgreint sem framlínustarfsfólk.

Leikskólabörnin í leikskólanum á tímum COVID-19

Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor, HA

Í erindinu er gerð grein fyrir gögnum úr spurningakönnun sem 658 starfsmenn leikskóla svöruðu um leikskólastarf á tímum samkomubanns vegna COVID-19. Sótt er í þann hluta gagna sem snýr að börnunum og markmiðið að skoða líðan þeirra og viðfangsefni. Vikurnar fyrir samkomubann hafði starfsfólk í verkalýðsfélaginu Eflingu verið í verkfalli sem hafði veruleg áhrif á skólastarf barna í Reykjavík og liðu einungis tveir virkir dagar á milli atburðanna. Verkfallið kallaði á skerta viðveru barna og börnin í Reykjavík því búin að upplifa töluverðan tíma þar sem óregla var á skólahaldi með tilheyrandi álagi á fjölskyldur. Í niðurstöðum kom meðal annars fram að misjafnar leiðir voru farnar við skipulag skólastarfs og takmarkanir voru víðast á mætingu barna. Svo virðist sem börnunum sem mættu í skólann hafi almennt liðið vel og ástandið ekki hafa haft veruleg áhrif á leik þeirra eða viðfangsefni. Foreldrar búsettir í Reykjavík telja að verkfall Eflingar hafi mildað þau áhrif sem takmarkanir á skólahaldi í samkomubanni hafði á börnin. Það er einkar mikilvægt að kortleggja áhrif samkomubannsins og afleiðingar þess fyrir leikskólabörn, sérstaklega í ljósi þess að ákveðnar líkur eru á að samfélagið þurfi að takast á við sambærileg verkefni í framtíðinni.

Leikskólabörn heima á tímum COVID-19

Jórunn Elídóttir, dósent, HA

Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif samkomubanns á líf foreldra og barna og áskoranir sem þeir stóðu frammi fyrir í daglegu lífi frá mars til maí vegna áhrifa COVID-19. Þrír rannsakendur við Háskólann á Akureyri tóku viðtöl, gegnum Zoom, með nokkurra vikna millibili við tólf fjölskyldur leikskólabarna sem bjuggu á Norðurlandi og á Reykjavíkursvæðinu. Rætt var við hverja fjölskyldu, móður eða báða foreldra, 3–4 sinnum, viðtölin voru frá 30–60 mínútna löng. Sótt er í þann hluta gagnanna sem sneri að börnunum, líðan þeirra og viðfangsefnum. Nokkrar fjölskyldur voru bæði með börn á leik- og grunnskólaaldri. Niðurstöður sýna að foreldrar fundu að börnin söknuðu vina sinna og þau börn sem ekki mættu í skóla söknuðu kennaranna og þess að taka þátt í daglegu starfi leikskólanna. Börnin voru, að mati foreldra, nokkuð fljót að aðlagast breyttu skipulagi skóla og tileinka sér þær reglur sem voru í gildi er sneru að handþvotti og fleiru. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hvernig heimilislífið var og hvað gekk vel þrátt fyrir að margt breyttist heima fyrir, t.d. vinna foreldra og litlar sem engar samvistir við vini og ættingja. Einnig voru margar áskoranir sem börn og foreldrar glímdu við og sagt verður frá. Þær sýna að þessi tími var mörgum erfiður en á sama tíma var hægt að sjá jákvæða þætti sem fjölskyldur upplifðu og greindu frá í viðtölunum. Rannsóknin dregur fram hvernig foreldrar lögðu sig fram um að aðlaga tilveruna að þörfum barnanna en gott skipulag heima fyrir skipti þar miklu máli.