Brottfall eða hlé á námi nemenda – Framhaldsskólinn

Háskóli Íslands

Brottfall eða hlé á námi nemenda – Framhaldsskólinn

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Kristjana Stella Blöndal

Að ná til nemenda

Michael Dal, dósent, MVS, HÍ

Rannsóknarverkefnið „The unteachables but learnables“ er framkvæmt með stuðningi áætlunarinnar Erasmus+. Hugtakið framhaldsskóli hefur undanfarin 20 ár breyst töluvert og má segja að um það bil 70–95% árganga fari nú í framhaldsskóla. Markmið rannsóknarinnar er að komast að því hvernig framhaldsskólar nú á dögum ná til nemenda sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í skólakerfinu. Rannsóknin nær til fimm landa í Evrópu; Danmerkur, Póllands, Ítalíu, Slóveníu og Íslands. Rannsóknaraðferðin er blönduð þar sem stuðst er við bæði megindlegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir. Spurningakönnun var send á kennara í 18 útvöldum skólum og síðan voru tekin viðtöl við 14 kennara og 35 nemendur. Niðurstöður gefa til kynna að brottfall nemenda á fyrsta ári í framhaldsskóla sé nokkuð hátt í öllum löndunum og því er ef til vill hægt að álykta að kennarar virðist eiga erfitt með að ná til ákveðins hóps nemenda. Margir nemendur segja að sér leiðist í skólanum, viðhorf til náms virðist vera frekar einhlítt og byggja fyrst og fremst á akademísku verðgildi. Minni áhersla er lögð á að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Einnig virðist kennslan mjög oft vera kennaramiðuð og ekki nemendamiðuð. Af niðurstöðum má álykta að framhaldsskólar í þessum fimm löndum glími við brotfall nemenda. Til að koma til móts við þetta vandamál þurfa skólarnir að breyta viðhorfi til náms og mikilvægt er að virkja nemendur bæði í og utan skóla.

Framhaldsskólanemendur sem gera hlé á námi: Einkenni og námsframvinda

Kristjana Stella Blöndal, dósent, FVS, HÍ og Ásbjörn Örvar Þorláksson

Á Íslandi gera mörg ungmenni hlé á framhaldsskólanámi sem að hluta er rakið til sveigjanleika skólakerfisins. Líklegt má telja að áhrifin geti bæði verið jákvæð og neikvæð fyrir námsferilinn. Aftur á móti hafa fáar rannsóknir beinst að þessum nemendahópi. Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur. Annars vegar að draga fram einkenni nemenda sem gera hlé á námi og hins vegar áhrif þess á námsferil þeirra. Byggt er á langtímarannsókninni Námsframvinda nemenda og skilvirkni framhaldsskóla. Gagnasöfnun fór fram árið 2007 og náði til allra almennra framhaldsskóla á landinu. Þátttakendur voru 1326 á aldinum 17 og 18 ára. Niðurstöður benda til að þeir sem tóku hlé áttu foreldra með litla formlega menntun, stóðu verr að vígi námslega, og sýndu minni skuldbindingu til náms og skóla samanborið við aðra nemendur. Niðurstöður aðhvarfsgreiningar hlutfalla sýndu að námshlé spáði fyrir um brotthvarf úr framhaldsskóla. Nemendur sem gerðu hlé á námi voru ólíklegri til að hafa lokið framhaldsskólanámi við 23 og 24 ára aldur. Þetta kom fram að teknu tilliti til bakgrunns nemenda, fyrri námsárangurs og skuldbindingar þeirra til náms og skóla. Rannsóknin sýnir að þótt nemendur hætti námi, þýði það ekki endalok námsferils þeirra, heldur byrjar nokkur hluti þeirra aftur í námi og lýkur því. Það átti einkum við um nemendur sem tóku stutt hlé frá námi, stóðu betur námslega og sýndu meiri skuldbindingu. Niðurstöðurnar auka skilning á þeim stuðningi sem gagnast þessum nemendahópi til að ljúka námi sínu.

Viðhorf ungs og lítt menntaðs fólks til starfa: Starfsvilji, starfsskynjun, aðlögunarhæfni á starfsferli

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor, FVS, HÍ

Því hefur verið spáð að á næstu árum verði miklar breytingar á um þriðjungi starfa á íslenskum vinnumarkaði og töluverðar breytingar á nær 60% starfa. Sá hópur sem mun upplifa hvað mesta breytingu eru þeir sem hafa einungis grunnskólamenntun og allt að 45% starfanna sem þessi hópur sinnir munu breytast eða hverfa alveg. Hvaða störfum er ungt fólk í þessum hópi að sinna og hver eru viðhorf þess til starfa? Þessi rannsókn skoðar þennan hóp og viðhorf hans til starfstengdra þátta, s.s. sjá þeir fram á að geta bætt sína stöðu eða aðlagað sig breytingum? Könnun var lögð fyrir 154 ungmenni á aldrinum 20 til 29 ára sem eru í starfi en hafa ekki lokið framhaldsskólanámi. Könnunin var megindleg og lögð fyrir í febrúar 2020. Niðurstöður sýna að þátttakendur stunda mjög margbreytileg störf og vinna mikið. Langflestir stunda verkamanna- eða þjónustustörf. Flestir hugsa sér til hreyfings í starfi, nema helst þeir sem eru í tæknigreinum. Um 60% þátttakenda hafa verið atvinnulausir á sínum starfsferli og hefur það marktæk áhrif á mældan starfsvilja þeirra (e. work volition). Mælingar á aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli (e. career adaptability) sýna mjög ákveðin tengsl við að setja sér markmið á starfsferli, en yfirhöfuð eru þátttakendur lægri á fjórum víddum aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli miðað við jafnaldra sína í landinu. Viðhorf til menntunar eru jákvæð og telja t.d. 71% af þeim sem ætla sér aftur í framhaldsskólanám að þeir muni ljúka því.