Bragðlaukaþjálfun

Háskóli Íslands

Bragðlaukaþjálfun

2. október kl. 13:45 til 15:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Anna Sigríður Ólafsdóttir

Bragðlaukaþjálfun: Helstu niðurstöður úr rannsókn á matvendni barna með og án taugaþroskaraskana og fjölskyldum þeirra

Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Urður Njarðvík, prófessor, HVS, HÍ og Ragnar Bjarnason, prófessor og yfirlæknir á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Leiðbeinandi: Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Sagt verður frá rannsókn okkar, Bragðlaukaþjálfun ‒ fæðumiðuð íhlutun í skólaumhverfinu, sem lauk í vor, og helstu niðurstöður kynntar. Ríflega 80 fjölskyldur luku námskeiði þar sem áhersla var á fæðuval, matvendni og líðan hjá börnum með og án taugaþroskaraskana á borð við ADHD og raskana á einhverfurófi. Matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir, er nýtt og vaxandi rannsóknarefni. Matvendni getur falið í sér að barn velur umfram annað mat sem er bragðdaufur eða sætur en litur, áferð og annað skynáreiti getur líka ýtt undir einhæft fæðuval. Börn með taugaþroskaraskanir eru gjarnan matvandari en önnur börn og geta átt erfitt með að borða fjölbreyttan mat. Það gerir að verkum að matartíminn getur valdið kvíða og gert samskipti fjölskyldumeðlima erfiðari í kringum máltíðir. Það er því sérstaklega mikilvægt að styðja við fæðuval hjá þessum börnum og stuðla að góðu næringarástandi þeirra en einnig hlúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan. Fá úrræði eru í boði fyrir börn með matvendni og taugaþroskaraskanir og oftast eru þau útilokuð frá rannsóknum af þessu tagi. Áhersla var lögð á að þróa úrræði fyrir börn með taugaþroskaraskanir og foreldra þeirra en jafnframt var horft til barna án þessara raskana til samanburðar. Skortur hefur verið á rannsóknum á þessu sviði hingað til, sér í lagi á vægari og einfaldari inngripum, og lítið framboð af fræðsluefni fyrir foreldra og skóla.

Fæðuval og matvendni meðal barna á einhverfurófi

Anna Rut Ingvadóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ. Leiðbeinandi: Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Tilgangur þessa verkefnis var að skoða matvendni barna á einhverfurófi og hvort þær fæðutegundir sem þau hafna séu frábrugðnar því sem börn án taugaþroskaraskana á borð við ADHD eða einhverfu fúlsa við. Verkefnið byggir á hluta af upphafsgögnum úr bragðlaukaþjálfun, stærri megindlegri rannsókn á matvendni í hópi 7–13 ára barna, sem eru ýmist með taugaþroskaraskanir á borð við einhverfurófsraskanir og ADHD eða án greiningar. Þátttakendur voru 166 foreldrar sem svöruðu spurningalistum tengdum eðli matvendni og um fæðuval barna sinna, af þeim áttu 37 börn á einhverfurófi en 129 svöruðu listunum fyrir börn án taugaþroskaraskana. Niðurstöður sýndu að börn á einhverfurófi borðuðu færri tegundir af ávöxtum og grænmeti en börn án taugaþroskaraskana. Einnig borðuðu þau sjaldnar trefjaríka matvöru eins og ávexti, ósætt morgunkorn, gróft pasta og hýðishrísgrjón. Að auki borðuðu börn á einhverfurófi afar fábrotinn mat, til dæmis borðuðu næstum öll (95%) það sama í morgunmat dag hvern eða flesta daga samanborið við 76% barna án taugaþroskaraskana. Niðurstöður sýndu einnig að börn á einhverfurófi höfnuðu marktækt oftar mat byggt á áferð, sleipri áferð og einnig söltu bragði en börn án taugaþroskaraskana. Fleiri börn á einhverfurófi borðuðu franskar kartöflur samanborið við börn án taugaþroskaraskana. Niðurstöðurnar styðja við fyrri rannsóknir á mataræði einstaklinga á einhverfurófi sem sýna að mataræði þeirra sé oft einfalt og uppistaðan orkuríkir og fínunnir kolvetnagjafar sem eru litdaufir og með lítið afgerandi áferð. Fáar rannsóknir liggja fyrir sem skoða matvendni barna á einhverfurófi samanborið við börn án taugaþroskaraskana og getur þessi rannsókn því verið framlag til þróunar þekkingar á sviðinu.

Er samhengi á milli matvendni barna og foreldra þeirra?

Helga Guðný Elíasdóttir, meistaranemi við Kaupmannahafnarháskóla, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, MVS, HÍ, Annemarie Olsen, prófessor, Kaupmannahafnarháskóli og Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ

Ýmsir þættir hafa áhrif á fæðutengda hegðun og fæðuval barna, þar á meðal flókið samspil uppeldis og erfða. Matvendni er algeng hjá börnum á fyrstu árum lífs þeirra en eldist svo yfirleitt af þeim, þó síður hjá börnum með taugaþroskaraskanir. Í þessu verkefni var aðaláhersla lögð á að kanna tengslin á milli matvendni hjá börnum og foreldrum þeirra, auk þess sem leitast var við að svara hvort vægi þyngra í matvendni, taugaþroskaraskanir eða fæðutengd hegðun foreldra. Notast var við gögn úr rannsókninni Bragðlaukaþjálfun þar sem horft var til fæðutengdrar hegðunar og fæðuvals barna og foreldra út frá spurningalistum sem foreldrar svöruðu við upphaf rannsóknarinnar. Frumniðurstöður benda til að fæðuval barna sem áttu matvanda foreldra var heilt yfir óhollara og einhæfara en hjá börnum sem áttu foreldra sem ekki voru matvandir. Börn matvandra foreldra höfnuðu oftar mat vegna áferðar hans eða bragðs. Þau borðuðu oftar sama matinn dag eftir dag og þau gleymdu oftar að borða vegna annríkis eða gleymsku. Börn sem áttu ekki matvanda foreldra hlökkuðu meira til þess að borða. Einnig sýndu niðurstöður að fæðutengd hegðun foreldra virðist enn frekar gegna hlutverki í matvendni barna en hvort barn hefur verið greint með taugaþroskaröskun eða ekki. Má því álykta að nálgun sem nær til fjölskyldunnar allrar og beinist einnig að fæðuvenjum foreldra geti skipt máli til að takast á við þann vanda sem matvendni getur verið. Foreldrar eru fyrirmyndir sem börnin spegla fæðuhegðun sína í.