Bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun og auka námsástundun nemenda

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Anna-Lind Pétursdóttir

Einstaklings- og bekkjarmiðaður stuðningur fyrir nemanda sem „vildi ekki vera öðruvísi“: Dregið úr langvarandi hegðunarvanda nemanda með einhverfu á lítt áberandi hátt

Helga Magnea Gunnlaugsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Silja Dís Guðjónsdóttir, meistaranemi, HVS HÍ; Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ og Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ

Kynnt verður verkefni þar sem notað var virknimat til að hanna árangursríka einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun. Tilgangur verkefnisins var að auka námsástundun og draga úr tíðni truflandi hegðunar hjá 10 ára dreng með greiningu um röskun á einhverfurófi og langa sögu um erfiða hegðun í kennslustofunni. Virknimat var gert úr þeim gögnum sem safnað var með beinum athugunum og óbeinum aðferðum, svo sem viðtölum við kennara, foreldra og nemanda. Niðurstöður virknimats voru svo notaðar til að hanna einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun þar sem gerðar voru breytingar á umhverfi barnsins, með því að hafa áhrif á bakgrunnsáhrifavalda, aðdraganda og afleiðingar.

Áhersla var á að kenna viðeigandi hegðun og styrkja hana kerfisbundið. Þar sem nemandinn vildi ekki vera öðruvísi en hinir nemendurnir í bekknum var notað táknstyrkjakerfi í formi hvatningarbókar sem kennarinn fyllti út og foreldrar sáu um að veita umbun heima. Einnig var notað táknstyrkjakerfi fyrir allan bekkinn og hávaðastika til að draga úr hávaða í kennslustofunni. Eftir að jákvæðar breytingar höfðu komið fram var afmáun (e. fading) beitt til að draga úr notkun táknstyrkjakerfanna. Námsástundun og truflandi hegðun var metin með endurteknum beinum áhorfsmælingum í stærðfræðitímum. Eftir inngrip jókst námsástundun nemandans að meðaltali úr 37% í 86% af 20 mínútna athugunartímum. Meðaltíðni truflandi hegðunar minnkaði úr 59 tilvikum í 10 tilvik á 20 mínútna athugunartímum. Niðurstöður benda til að hægt sé að draga úr langvarandi hegðunarvanda nemanda með einhverfu með lítt áberandi hegðunarstuðningi byggðum á virknimati og aðferðum sem beinast að öllum bekknum.

 

Hvatningarleikur til bekkjarstjórnunar: Áhrif á námsástundun og hegðun nemenda

Jónína Klara Pétursdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, dósent, MVS HÍ

Erfið hegðun barna og agavandamál eru mikið áhyggjuefni meðal íslenskra kennara og foreldra. Hegðunarerfiðleikar hafa einnig neikvæð áhrif á samskipti, nám og framtíðarhorfur nemenda. Það er því brýnt að miðla áhrifaríkum aðferðum til kennara og aðstoða þá við að skapa jákvætt og hvetjandi námsumhverfi. Markmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif beitingar Hvatningarleiksins (The Good Behavior Game) við bekkjarstjórnun á hegðun og námsástundun nemenda. Fyrri rannsóknir erlendis hafa bent til þess að leikurinn dragi úr hegðunarvanda nemenda og stuðli að bættum framtíðarhorfum þeirra. Þátttakendur voru fimm stúlkur og sjö drengir á aldrinum 7–11 ára í þremur bekkjum sem höfðu að sögn kennara langa sögu um erfiða hegðun og litla námsástundun. Í rannsókninni var gögnum safnað með beinum athugunum í stærðfræðitímum fyrir og eftir innleiðingu Hvatningarleiksins. Kennarar þátttakenda sóttu örnámskeið um Hvatningarleikinn og innleiðingu hans í kennslustofu. Margfalt grunnskeiðssnið og ABAB-vendisnið voru nýtt til þess að meta áhrif leiksins á námsástundun og truflandi hegðun nemenda. Niðurstöður sýndu að meðan á Hvatningarleiknum stóð jókst námsástundun nemenda að meðaltali úr 57% í 93% kennslustundar og óæskileg hegðun var fátíð. Í lok rannsóknarinnar var upplifun nemenda af Hvatningarleiknum könnuð og voru nemendur sammála um að Hvatningarleikurinn væri skemmtilegur, hjálpaði bekknum þeirra að læra og að þeir myndu vilja halda áfram í leiknum með kennaranum sínum. Niðurstöðurnar benda til þess að Hvatningarleikurinn gæti nýst íslenskum kennurum við bekkjarstjórnun í ljósi jákvæða áhrifa hans á hegðun nemenda og ánægju þeirra með hann.

 

Aukin námsástundun og minni truflandi hegðun í skólastofunni með einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun

Erla Sif Sveinsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Glódís Alda Baldursdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Katrín María Elínborgardóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ

Í erindinu verður greint frá niðurstöðum virknimats og stuðningsáætlunar fyrir nemanda í 3. bekk. Markmiðið var að minnka tíðni truflandi hegðunar og auka námsástundun í kennslustundum. Gögnum var safnað bæði með beinum og óbeinum hætti. Viðtöl voru tekin við umsjónarkennara nemandans, foreldra hans og hann sjálfan. Tíðniskráning var gerð til að athuga tíðni truflandi hegðunar og tímamæling var notuð til að athuga hlutfall námsástundunar yfir 20 mínútna áhorfstímabil. Einnig voru gerðar AHA-skráningar til að fá upplýsingar um hegðunina sjálfa, aðdraganda hennar, styrkjandi afleiðingar og virkni fyrir einstaklinginn. Út frá niðurstöðum virknimats var útbúin einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun þar sem gerðar voru breytingar á umhverfi nemandans með því að hafa áhrif á bakgrunnsáhrifavalda, aðdraganda og afleiðingar. Meðal aðferða í stuðningsáætluninni var sýnilegt skipulag og skýrar leiðbeiningar. Jafnframt var nemanda kennd viðeigandi hegðun og hún styrkt kerfisbundið með táknstyrkjakerfi í formi hvatningarbókar. Kröfur voru svo markvisst auknar eftir því sem færni nemandans jókst. Á grunnskeiði var námsástundun nemandans að meðaltali tæp 62% af 20 mínútna áhorfstímabilum. Eftir innleiðingu inngrips hækkaði meðaltal námsástundunar upp í 96%. Meðaltal truflandi hegðunar lækkaði úr 48 tilvikum á 20 mínútna áhorfstímabilum niður í tæplega fimm tilvik. Aðspurður var nemandinn sjálfur ánægður með inngripið og árangur sinn og lýsti bættri líðan. Niðurstöður benda því til þess að hægt sé að nota einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun til að auka námsástundun og draga úr langvarandi hegðunarvanda með stuðningsáætlun byggðri á góðri samvinnu við nemanda og hlutaðeigandi aðila.

 

Stuðningsfulltrúa leiðbeint í að auka námsástundun, bæta hegðun og efla sjálfstæð vinnubrögð nemanda í kennslustundum

Bára Denný Ívarsdóttir, þroskaþjálfi, Anna Björg Sigurðardóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Kristín Anna Thorlacius Jensdóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS HÍ

Í erindinu verður sagt frá áhrifum vettvangsverkefnis í námskeiðinu Hegðunar- og bekkjarstjórnun þar sem teymi nema í hagnýtri atferlisgreiningu framkvæmdi virknimat til að hanna einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun fyrir nemanda í 4. bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu með langvarandi hegðunarvanda. Nemandinn naut liðsinnis stuðningsfulltrúa en sýndi þrátt fyrir það litla námsástundun og tíða truflandi hegðun í kennslustundum. Markmiðið var að efla sjálfstæð vinnubrögð, auka námsástundun og draga úr truflandi hegðun í tímum hjá umsjónarkennara. Virknimat var gert með viðtölum við kennara, nemanda og móður nemanda auk beinna athugana á aðdraganda og afleiðingum hinnar erfiðu hegðunar. Stuðningsáætlun byggði á niðurstöðum virknimatsins og fól í sér úrræði sem beindust að aðdraganda hegðunar, þjálfun í viðeigandi hegðun og hvatningarkerfi með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu. Teymið leiðbeindi stuðningsfulltrúa í framkvæmd stuðningsáætlunar og veitti honum skriflegar leiðbeiningar til að fylgja. Endurteknar mælingar samkvæmt AB-einliðasniði sýndu að hlutfall sjálfstæðra vinnubragða jókst úr 28% í 91% að meðaltali, hlutfall námsástundunar jókst úr 18% í 97% að meðaltali og tíðni truflandi hegðunar fór úr 10 tilvikum að meðaltali niður í 2 tilvik meðan á íhlutun stóð. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að draga úr langvarandi hegðunarerfiðleikum nemenda og auka námsástundun með stuttri þjálfun stuðningsfulltrúa í einstaklingsmiðuðum stuðningsáætlunum sem byggja á virknimati.