Áhrifamáttur list- og verkgreina í menntun til sjálfbærni

Háskóli Íslands

Áhrifamáttur list- og verkgreina í menntun til sjálfbærni

2. október kl. 13:45 til 17:00 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um listkennslu og sjálfbærni í Listaháskóla Íslands

Ásthildur B. Jónsdóttir

Listrænt ákall til náttúrunnar

Ásthildur B. Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og stundakennari við LHÍ

Með því að tengja listræn verkefni við náttúrumennt geta kennarar skapað aðstæður fyrir nemendur sem hjálpa þeim að verða meðvitaðri um umhverfið. LÁN-verkefnin (listrænt ákall til náttúrunnar) veita forsendur til að opna hug og hjörtu þátttakenda og auka skilning þeirra á hinni stóru heimsmynd. Í listgreinum þjálfast bæði hreyfigeta eins og fínhreyfingar og vitsmunalegir þættir eins og ímyndunarafl, fagurfræðilegur þroski sem nemendur tengja við eigin reynslu, gildismat og áhugasvið. Fagurfræðilegar vangaveltur byggja á þeim gildum sem við lifum eftir, þar með talið tilfinningum fyrir stöðum og hvaða áhrif við getum haft á þá. Samkennd verður öflugri þegar við gerum okkur grein fyrir því að allir þættir í umhverfinu tengjast á einhvern hátt. Með því móti öðlumst við betri skilning á hvaða áhrif okkar eigin athafnir og ákvarðanir geta haft á umhverfið og þá staði sem okkur þykir vænt um. Með því að leggja áherslu á að vinna með tilfinningar gagnvart umhverfinu skapast forsendur til að þroska gildi og gildismat. Í því samhengi er mikilvægt að fá að taka þátt og vera virk í samvinnu. Verkefnin eru öll þverfagleg og leita leiða til að skilja jörðina betur með því að líta til aðferða listamanna sem leggja áherslu á að nemendur öðlist nýja þekkingu og skilning í tengslum við sig sjálfa. Verkfæri listanna eru notuð til að skynja, skilja og lesa skilaboð umhverfisins.

Raddir barna: Veggspjaldagerð með áherslu á lífríki sjávar

Magnús Valur Pálsson, grunnskólakennari, Melaskóli

Starfendarannsóknin varpar ljósi á verkefnið Þetta viljum við? Markmið verkefnis var að veita nemendum svigrúm til að leita svara við spurningunni „Hvað getum við gert?“ Þátttakendur fengu fyrirlestur frá sérfræðingum hjá Rannsóknarmiðstöð sjávarútvegsins sem lagði áherslu á örplast í sjó. Í kjölfarið hófst hugmyndavinna þar sem lögð var áhersla á gagnrýni og sjálfsrýni, bæði hjá nemendum og kennurum, og gagnrýnið samtal þar sem stuðlað var að meiri meðvitund, gagnrýninni hugsun, tjáningu, hlustun og dómgreind styrkt. Nemendur fengu fyrirlestur um hvernig grafísk hönnun getur dregið fram áhersluatriði sem fær fólk til að endurskoða viðhorf sitt til náttúrunnar. Kennslufræðileg nálgun var þverfagleg þar sem áhersla var lögð á frumkvæði nemandans og áræði. Erindið dregur saman listrænar niðurstöður þátttakenda sem voru sýndar á Listasafni Reykjavíkur í tengslum við Barnamenningarhátíð. Fjallað verður um þau málefni sem brenna á ungu fólki nú á dögum.

Líffræðilegur fjölbreytileiki

Jelena Bjeletic, leikskólakennari, Sæborg

Starfendarannsóknin fjallar um þróun stararfskenningar höfundar í átt að aukinni áherslu á sjálfbærni. Fjallað er um verkefnið þar sem höfundur vann með 4–5 ára börnum út frá líffræðilegum fjölbreytileika og lífsskilyrðum á jörðinni. Hugtakið líffræðilegur fjölbreytileiki nær yfir öll lífsamfélög og birtingarform alls lífs á jörðinni. Verkefnið veitti tækifæri til þverfaglegrar nálgunar þar sem unnið var á skapandi hátt með málefni náttúrufræði. Sagt verður frá listamannaheimsókn og gildi slíkrar heimsóknar fyrir skólastarf. Fjallað verður um hvernig unnið var með tengsl lífbreytileikans við þróun lífs á jörðinni með sérstakri áherslu á skordýr. Sýndar verða myndir af skordýrum sem þátttakendur unnu úr matarafgöngum. Fjallað verður um hugmyndafræði verkefnisins með sérstakri áherslu á umfjöllun um kennslufræði leikja. Niðurstöður verkefnisins voru til sýnis á Kjarvalsstöðum á Barnamenningarhátíð. Sýningin fékk mikla umfjöllun. Rætt verður um hvaða áhrif slík umfjöllun hefur á skólastarf.

Ævintýrafuglar og búsvæði þeirra

Louis Harris, grunnskólakennari, Landakotsskóli

Á tímum hnattrænnar hlýnunar og frétta um dýr í útrýmingarhættu getur okkur skólafólki fallist hendur. Hvernig er best að fjalla um þessi erfiðu málefni án þess að valda angist og svartsýni? Er leiðin mögulega sú að tengja börn við náttúruna á sem fjölbreytilegastan máta? Að kenna nemendum að nefna og þekkja fuglana, blómin og skordýrin? Að mynda djúp tengsl við náttúruna með sköpun og gleði að leiðarljósi? Í þeirri sýningu sem hér má sjá hafa nemendur unnið með fugla á margs konar hátt. Erindið fjallar um samvinnu allra starfsmanna og nemenda Landakotsskóla sem sýndu verk sín á Kjarvalsstöðum í tengslum við Barnamenningarhátíð vorið 2020. Með aðstoð Margrétar H. Blöndal, myndlistarmanns, veltu yngstu nemendur Landakotsskóla fyrir sér samlífi æðarfugls og manns og bjuggu til líkan af varpsvæðum sem vísast gætu hænt alla æðarfugla landsins til lags við mannfólkið. Nemendum voru sýndar margs konar myndir af fuglum og hver og einn vann teikningar sem urðu grunnur að þæfðu verki þar sem vísindi og staðreyndir fengu að víkja fyrir ímyndunaraflinu. Einnig urðu íslenskir varpfuglar uppspretta sköpunar og í hugarheimi barnanna urðu til nýrri og litfegurri tegundir en þær sem við sjáum oftast í móum landsins. Niðurstöður verkefnisins sýna gildi samvinnu fyrir skólastarf og hvernig heildstæð skapandi nálgun getur stuðlað að menntun til sjálfbærni.

Þræðir

Þórey Hannesdóttir, myndlistarkennari, Laugarnesskóli

Þræðir vísar til þeirra þráða sem tengja saman ólíkar greinar grunnskólans með áherslu á samfélag, náttúru og menningu. Þræðir vísa einnig í handverk og listir, með áherslu á textíl í samtímalist, sem tengja okkur við menningararfinn og eru samtvinnuð tilvist okkar. Fyrirlesturinn fjallar um áherslur í námi grunnskólabarna sem snerta sköpunarþáttinn og þróun til sjálfbærni, undirstöðu þeirra þátta og uppsprettu. Sagt er frá nokkrum verkefnum sem ýta undir forsendur aukinnar færni og þekkingarsköpunar með umfjöllum um val tengt áhugasviði, aðferðir listamanna, gagnrýna hugsun, gildismat og umhverfisvernd og jafnvægisleitni í skilningi sjálfbærnimenntunar. Sagt verður frá þáttum sem snúa að sjálfbærri efnisnotkun og markmiðum útináms í tengslum við áherslur Uppeldis til ábyrgðar. Þær áherslur snúa að uppbyggingu sjálfsaga og að átta sig á þörfum sínum. Þannig er undirstaða verkefnanna byggð á grunnþörfum mannsins í tengslum við umhverfi sitt og þekkingu á vistkerfum ásamt möguleikum þess að nýta náttúruna sem uppsprettu sköpunar.

Föstudagar fyrir framtíðina

Gunndís Ýr Finnbogadóttir, lektor, LHÍ og Ásthildur B. Jónsdóttir, LHÍ

Í fyrirlestrinum verður fjallað um mismunandi nálganir og gildi þess að ganga í tengslum við nám og listir. Sjónum verður einkum beint að samtíma listamönnum og fræðimönnum sem ýmist nota göngu til þess að skapa eða miðla listrænum eða fræðilegum niðurstöðum. Fjallað verður um ólíkar tilraunir með miðlunar og samstalsaðferðir í göngum með það að markmiði að skoða hvernig ganga, í mismunandi aðstæðum, getur haft áhrif á skynjun okkar, skapandi hugsun og þekkingarsköpun. Göngugjörninginn Föstudagar fyrir framtíðina verður skoðaður sérstaklega með aðferðum tilviksrannsóknar. Ungt fólk um heim allan hefur síðustu misseri fylgt í fótspor Gretu Thunberg og lýst yfir áhyggjum af loftslags- og umhverfismálum. Þau vilja að gripið verði til ráðstafana sem duga til framtíðar. Á Íslandi hefur hópur ungs fólks verið virkur í að benda á vandann og krefst hann aðgerða strax. Ungmennin sem hafa skipulagt verkföll fyrir loftslagið á Austurvelli skora á alla að reyna að setja sig í fótspor þeirra og taka þátt í að berjast fyrir verndun náttúrunnar.

Textílmennt og sjálfbærni – Námsvefurinn Gera sjálfur

Ásta Vilhjálmsdóttir, grunnskólakennari, Valhúsaskóli

Erindið fjallar um námsvefinn Gerðu sjálfur, en það er námsefni í textílmennt í grunnskólum, ætlað til að bæta úr skorti á námsefni þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, sem er einn af grunnþáttum gildandi aðalnámskrár og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í erindinu er námsvefnum gerð fræðileg skil með stuðningi eigindlegrar rannsóknar. Verkefnin taka á neyslu, úrgangi, skynditísku, fatasóun, sjálfbærri tísku og umhverfisáhrifum textíliðnaðarins. Efninu er ætlað að stuðla að bættri siðferðiskennd og hvetja til gagnrýninnar hugsunar á sviði neyslu- og umhverfishegðunar sem leitt geti til sjálfbærari lífshátta. Fjallað er um nýja hreyfingu barna og ungmenna í aðgerðum í loftslagsmálum og getu þeirra til að hafa áhrif í ýmsum málum sem snúa að sjálfbærni. Bent er á leiðir og góð ráð til að snúa þróuninni við með breyttum lífsháttum og gildum. Verkefnin fjalla um nýtni, endurvinnslu og endurgerð textílúrgangs og annars efnis sem ekki er lengur í notkun og yrði hent ella. Þau miðast að því að opna augu nemenda fyrir því að það sem við hendum og köllum úrgang getur verið dýrmætt hráefni sem auðvelt er að nýta á skapandi hátt. Nokkur verkefni hafa náttúru og umhverfi að leiðarljósi og miða að því að auka tengsl nemenda við raunveruleikann, náttúruna og umhverfið, sem er mikilvægt sjálfbæru gildismati. Sagt verður frá nokkrum verkefnum sem eru samfélagsmiðuð og hafa að markmiði að gefa af sér og vekja samhygð. Áhersluatriðin eru gildi, gagnrýnin og skapandi hugsun, reynslunám og verklegt nám sem getur nýst í sjálfbærnimenntun.

 

Sjálfbærni og fatahönnun

Björg Ingadóttir, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ

Fyrirlesturinn fjallar um rannsókn á nýjum stafrænum leiðum í fatahönnun og fataframleiðslu. Markmið rannsóknarinnar gekk út á að kanna hvernig þrívíddartækni nýtist hönnuðum til nýsköpunar í eigin starfi, með hönnunarnemum í verkefnum þeirra og til kennslu í fatahönnun/fatatækni. Rannsóknin var starfendarannsókn þar sem leitað var nýrra möguleika sem styðja við jákvæð umhverfissjónarmið. Þeir geta nýst tískuhönnuðum og nemendum í hönnun til þess að gera vinnuferla þeirra sjálfbærari á tímum aukinna krafna um skilvirkni og sjálfbærni sem styðja við jákvæðari fata- og textíliðnað. Að vera tískuhönnuður nú á dögum er flókið ábyrgðarstarf, þar sem hönnuðir hanna yfirleitt vöru sem á endanum er framleidd. Þá nota hönnuðir þar af leiðandi dýrmæt hráefni úr náttúrunni og skilja eftir sig mismikil vistspor. Mikilvægt er að þeir kennarar sem kenna tísku- og/eða fatahönnun geti kennt nemendum sínum að vinna á sem sjálfbærastan hátt, frá hugmynd að framleiðslu vöru eða þjónustu. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á hvernig höfundur skoðaði markvisst hvernig hún gat sjálf orðið sem sjálfbærust í starfi sínu sem hönnuður.