Áhrif COVID-19 faraldursins á grunnskóla- og tómstundastarf – Seinni hluti

Háskóli Íslands

Áhrif COVID-19 faraldursins á grunnskóla- og tómstundastarf – Seinni hluti

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

COVID-hópurinn

Kristín Jónsdóttir

Reynsla og upplifun þroskaþjálfa í skóla- og frístundastarfi af áhrifum COVID-19 faraldursins

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjúnkt, MVS, HÍ og Anna Björk Sverrisdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Höfundar skoða upplifun og reynslu þroskaþjálfa af áhrifum faraldursins. Um 40% þroskaþjálfa starfa á Skóla- og frístundasviði. Það er fagleg ábyrgð þeirra að styðja við fulla þátttöku barna sem þurfa á margvíslegum stuðningi að halda með því að aðlaga náms- og starfsumhverfi að margbreytilegum þörfum þeirra. Oft vinna þroskaþjálfar með börnum sem eiga á hættu að vera jaðarsett, fái þau ekki nægilegan og viðeigandi stuðning. Álykta má að þau börn hafi verið sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins. Með hliðsjón af faglegri ábyrgð þroskaþjálfa má leiða hugann að því hvernig fagþekking þeirra hafi nýst við að aðlaga og viðhalda þjónustu við börn í faraldrinum. Markmið þessa hluta rannsóknarinnar var að fá fram upplifun þroskaþjálfa á faglegri ábyrgð sinni í skertu skóla- og frístundastarfi. Leitað var svara við eftirfarandi spurningum: Hvert er mat þroskaþjálfa á áhrifum faraldursins á þjónustuna sem þeir veita? Hvaða áhrif telja þeir að ástandið hafi haft á félagsleg tengsl barnanna og samskipti þeirra við jafnaldra sína? Telja þeir að fagþekking þeirra hafi nýst nógu vel við að aðlaga þjónustu við börn að breyttum aðstæðum? Vísbendingar eru um að faraldurinn hafi haft töluverð áhrif á þjónustu þroskaþjálfa og félagsleg samskipti barna. Þroskaþjálfar upplifðu að fagþekking þeirra hefði nýst vel en ekki var alltaf leitað eftir henni. Rætt verður hvaða lærdóm er hægt að draga af þessari reynslu og hvernig hægt sé að nýta hann til þess að bregðast betur við áskorunum sem þessum til þess að koma sem best til móts við öll börn í skóla- og frístundastarfi.

Áhrif COVID-19 faraldursins á frístundastarf barna og unglinga

Ársæll Arnarsson, prófessor, MVS, HÍ

Þó áhrif COVID-19 faraldursins á skólastarf hafi verið umfangsmikil og augljós, þá voru þau ekki síður afdrifarík fyrir frístundastarf barna og unglinga. Í sveitarfélögum var gripið til margs konar aðgerða til að viðhalda tengslum og bjóða upp á þjónustu. Í þessari rannsókn verða kynntar niðurstöður spurningalistakönnunar sem send var út á starfsfólk á sviði frítímans. Skoðað var hvernig mæting í frístundastarf breyttist, hvort ákveðnir hópar drógu frekar úr mætingu en aðrir, og til hvaða aðgerða starfsfólk greip til að mæta þessum aðstæðum. Sjónum var sérstaklega beint að þeim börnum og unglingum sem eiga annað móðurmál en íslensku, hafa veikt bakland, eiga við námserfiðleika að stríða, eða hafa glímt við félagslega einangrun. Í könnuninni voru starfsmenn inntir eftir því hvað væri mikilvægt að setja á oddinn þegar frístundastarf hæfist að nýju með eðlilegri hætti. Þá var einnig spurt hvort einhver jákvæð tækifæri hefðu skapast við þessar aðstæður og hvort eitthvað hefði reynst sérstaklega erfitt.

Nýting stafrænnar tækni og netkennsla: Skammtímalausnir eða þróun til framtíðar

Gréta Björk Guðmundsdóttir, prófessor, Oslóarháskóli, Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS, HÍ, Torfi Hjartarson, lektor, MVS, HÍ, Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS, HÍ, Skúlína H. Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Svava Pétursdóttir, lektor, MVS, HÍ

Töluverð þróun hefur verið í fjar- og netkennslu hér á landi á undanförnum árum ekki síst á framhalds- og háskólastigi. Fjarnám á grunnskólastigi hefur eitthvað verið nýtt, til dæmis til að tengja fámenna skóla eða bjóða upp á kennslu í tungumálum (ekki síst norsku og sænsku á unglingastigi). Nýting stafrænnar tækni í grunnskólum hefur þó aukist víða, ekki síst með aukinni notkun spjaldtölva í skólastarfi og hefur námsumhverfi á neti einnig nokkuð verið nýtt í auknum mæli í ýmsum skólum. Í veirufaraldrinum stóðu hins vegar skólar út um allan heim frammi fyrir því að færa hluta eða allt nám yfir á netið á skömmum tíma. Í þessu erindi verður fjallað um hvernig starfsfólki íslenskra skóla gekk að fást við slíkar áskoranir. Staða skóla hvað varðar tæknilega innviði og ráðgjöf var könnuð, skoðað var hvaða leiðir voru farnar í námi og kennslu í faraldrinum og hvaða stafræna tækni var nýtt og/eða nýttist best. Þá voru breytingar á kennsluháttum skoðaðar með tilliti til netnáms og þátttakendur beðnir um að lýsa mögulegum tækifærum, hindrunum og álitamálum í tengslum við þær takmarkanir á skólastarfi sem urðu vegna faraldursins. Niðurstöður geta skipt máli til að þróa áfram netkennslu og nýtingu stafrænnar tækni í grunnskólum, ekki aðeins á áframhaldandi óvissutímum vegna COVID-19 heldur einnig vegna stefnumótunar um upplýsingatækni í menntun og skólastarfi til framtíðar.