Áhrif COVID-19 faraldursins á grunnskóla- og tómstundastarf – Fyrri hluti

Háskóli Íslands

Áhrif COVID-19 faraldursins á grunnskóla- og tómstundastarf – Fyrri hluti

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

COVID-hópurinn

Málstofustjóri: Kristín Jónsdóttir

Tengslin við heimilin trosnuðu merkilega lítið: Frá sjónarhorni stjórnenda og grunnskólakennara

Kristín Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Langflestir grunnskólar minnkuðu viðveru nemenda töluvert á COVID-tímabilinu og einstaka skóli lokaði. Þar kom á móti að allir skólar juku upplýsingagjöf til foreldra og tóku upp fjarkennslu í einhverri mynd. Skipulag viðveru og fjarkennslu var mjög mismunandi milli skóla og milli sveitarfélaga en allir væntu þess að nemendur lærðu heima. Foreldrar grunnskólabarna eru ekki einsleitur hópur frekar en börnin sjálf og breytingar á starfsemi skóla komu við fjölskyldurnar á ólíka vegu. Á samfélagsmiðlum mátti sjá foreldra sem lýstu heimakennslu sem ánægjulegri viðbót við samverustundir fjölskyldunnar, annars staðar fréttist af börnum sem upplifðu depurð og óöryggi og fundu hvergi næði til að læra heima. Niðurstöður spurningakönnunarinnar sýna að kennurum og stjórnendum var vel ljóst að aðstæður nemenda til náms heima fyrir væru mismunandi. Þrátt fyrir það – eða kannski einmitt þess vegna – lögðu þeir mikla vinnu í að halda uppi kennslu eins og hægt var og búa nemendur út með námsefni og verkefni en kennsluáætlunum þurfti að breyta töluvert. Kennarar eyddu meiri tíma en í venjulegu árferði í undirbúning kennslu og í upplýsingamiðlun til heimilanna. Nokkrar vísbendingar eru um að tengsl skóla og heimila hafi frekar eflst en veikst á þessu tímabili og verða þær ræddar í erindinu.

Grunnskólakennsla á tímum fjöldatakmarkana vegna COVID-19: Frá sjónarhorni grunnskólakennara

Ylfa G. Sigurðardóttir, grunnskólakennari, HA og Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, HA

Í erindinu eru kynntar niðurstöður eigindlegrar rannsóknar um grunnskólakennslu á tímum fjöldatakmarkana vegna COVID-19 frá sjónarhorni íslenskra grunnskólakennara. Markmið þessarar rannsóknar er að öðlast skilning og varpa ljósi á upplifun og reynslu kennara af grunnskólakennslu á tímum fjöldatakmarkana vegna COVID-19. Fræðilegur rammi byggist á áherslum opinberrar menntastefnu um menntun fyrir alla, lögum og reglugerðum um grunnskóla á Íslandi, lykilatriðum í störfum grunnskólakennara, samstarfi heimilis og skóla og fyrirliggjandi gögnum og rannsóknum um COVID-19. Rannsóknin fól í sér viðtöl við þrettán grunnskólakennara í þremur grunnskólum á Íslandi, tveimur á höfuðborgarsvæðinu og einum á landsbyggðinni, um hvort og þá hvernig afleiðingar fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 hefðu haft á líðan, starfsumhverfi, kennslu og starfshætti grunnskólakennaranna. Viðtölin voru tekin í apríl 2020. Í erindinu eru kynntar niðurstöður um hvernig fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 reyndu á fagmennsku grunnskólakennara, ábyrgð þeirra og skyldur. Nokkur mismunur var á milli grunnskólanna hvað varðar viðveru, fyrirkomulag náms og áherslur í kennslunni. Fjallað verður um hvernig breyttar aðstæður nemenda kölluðu á annars konar ábyrgð kennara, m.a. persónuvernd nemenda, netnotkun og heimilislíf. Kennarar áttu almennt auðvelt með að aðlaga sig að nýjum kröfum í starfi og höfðu vilja til að draga lærdóm af reynslu sinni sem þeir öðluðust á þessum tíma.

Samvinna og sveigjanleiki – Frístundaheimilin á tímum heimsfaraldurs

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Í þessu erindi er sjónum beint að starfsemi frístundaheimila þegar skóla- og frístundastarfi var umturnað í mars 2020 vegna COVID-19 faraldursins. Kannað var hvernig starfsfólk og stjórnendur frístundaheimila upplifðu samstarf við starfsfólk skóla, foreldra og börn. Frístundaheimili starfa samkvæmt lögum um grunnskóla og bjóða upp á skipulagt starf fyrir 6–­9 ára börn að loknum skóladegi. Rafræn spurningakönnun var send út á netföng starfsfólks allra grunnskóla og svör greind eftir starfsheitum. Enn fremur var könnunin send á netföng allra stjórnenda og millistjórnenda frístundastarfs í Reykjavík. Niðurstöður sýna að starfsfólk frístundaheimila taldi að almennt hefði starfið gengið nokkuð vel, þó að mikil röskun hefði orðið í daglegu starfi. Meirihluti svarenda taldi að röskun á skóla- og frístundastarfi hefði haft mikil áhrif á líðan barna, ekki síst þeirra sem stæðu höllum fæti. Í einhverjum tilfellum lokaði frístundaheimilið en á flestum starfsstöðum var skipulagi breytt til að tryggja lágmarksþjónustu. Starfsfólk telur að auka þurfi upplýsingaflæði og samstarf milli skóla og frístundaheimila til að tryggja heildstætt starf og betri stuðning við börn og fjölskyldur. Niðurstöður benda til að foreldrar leiti töluvert til starfsfólks frístundaheimila og munu þær nýtast til að efla fagþróun og stefnumótun frístundastarfs.