Aðlögun og líðan barna: Áhrifaþættir og úrræði

Háskóli Íslands

Aðlögun og líðan barna: Áhrifaþættir og úrræði

2. október kl. 15:30 til 17:00 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Margrét Sigmarsdóttir

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan

Foreldrafærni sem úrræði vegna hegðunarerfiðleika barna: Áhersla á þátt feðra

Margrét Sigmarsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Örnólfur Thorlacius, verkefnisstjóri, FVS, HÍ, David S. DeGarmo, University of Oregon og Marion S. Forgatch, Implementation Science International Inc., Oregon Social Learning Center

Úrræði sem efla foreldrafærni byggja á víðtækum rannsóknargrunni og skila góðum árangri í meðhöndlun á hegðunarerfiðleikum barna. Erlendar niðurstöður sýna að foreldrafærni feðra hefur tvöföld áhrif á við mæður. Í erindinu verða kynntar niðurstöður íslenskrar slembivalsrannsóknar (RCT) þar sem bornir voru saman tveir hópar; annars vegar hópur sem fékk sannprófaða meðferð með áherslu á að efla foreldrafærni (e. Parent Management Training – Oregon aðferð) og hins vegar hópur sem fékk þá þjónustu sem börnum með hegðunarerfiðleika er veitt hérlendis (e. Service as usual/SAU). Þátttakendur voru fjölskyldur 102 barna með hegðunarerfiðleika frá fimm sveitarfélögum vítt og breitt um Ísland á aldrinum fimm til tólf ára. Lagt var mat á aðlögunarvanda barns, foreldrafærni og líðan foreldra og gögnum safnað með spurningalistum, í viðtölum og með beinu áhorfi. Niðurstöður fyrir og eftir meðferð höfðu sýnt minni hegðunarvanda barna í tilraunahópnum miðað við samanburðarhópinn og breytingar í foreldrafærni mæðra í tilraunahópnum sem sýndu aukin einkenni þunglyndis. Í mælingu til eftirfylgni héldust niðurstöður að ákveðnu leyti varðandi aðlögun barnsins. Jafnframt komu fram nýjar niðurstöður varðandi foreldrafærni en samkvæmt stigskiptu línulegu vaxtarlíkani (e. hierarchical linear growth models/HLM) þá kom fram marktæk aukning á foreldrafærni feðra (β14 = .11, p < .01) og stór áhrifsstærð (r2 = .38, d = 1.5). Út frá niðurstöðum má draga þá ályktun að sannprófuð foreldrafærni (hér PMTO) skili meðferðarárangri til lengri tíma hérlendis og aukin foreldrafærni feðra í tilraunahópnum miðað við samanburðarhópinn gefur vísbendingar um að þátttaka feðra í foreldrafærniúrræðum ætti að vera áhersluatriði.

Reynsla fagfólks innan skólakerfisins af PMTO-grunnmenntun: „… maður grípur í það sem að gengur upp“

Katrín Ösp Magnúsdóttir, grunnskólakennari, Grunnskóli Vesturbyggðar – Patreksskóli, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Kynnt verður rannsókn á reynslu fagfólks af PMTO-grunnmenntun (Parent Management Training – Oregon model) í einu sveitarfélagi. Þátttakendur voru níu kvenkyns fagaðilar úr þremur leikskólum og þremur grunnskólum, sem ýmist voru í stjórnendastöðu eða unnu beint með börnum. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl og stuðst við grundaða kenningu og kóðun í gagnagreiningunni. Niðurstöður voru flokkaðar í fimm efnisflokka: Bein notkun aðferðanna, Ráðgjöf og handleiðsla, Viðhald þekkingar og stuðningur og Ólík notkun aðferðanna í leik- og grunnskólum. Niðurstöður sýndu almenna ánægju meðal viðmælenda með PMTO-grunnmenntunina og að þeir töldu hana gagnlega í starfi, bæði í tengslum við börnin og í ráðgjöf til foreldra og samstarfsfólks. Sumir nefndu að þeir vildu þjálfa sig betur í að nota aðferðirnar. Í frásögnum viðmælenda kom fram að hrós og jákvæð styrking væru mikið notuð, bæði í leik- og grunnskólum. Flestum fannst einvera nýtast síst til að stuðla að bættri hegðun og munur kom fram á beitingu hennar í leik- og grunnskólum. Samhljómur var um að eftirfylgni varðandi PMTO-grunnmenntunina væri ákjósanleg til að rifja upp og skerpa á aðferðunum. Einnig töluðu viðmælendur um kosti þess að fleiri en einn á sama vinnustaðnum hefðu lokið PMTO-grunnmenntuninni til að styðja við samstarf við innleiðingu aðferðanna og við að miðla þekkingunni til annarra starfsmanna. Niðurstöður veita vísbendingar um jákvæða reynslu fagfólks skóla af PMTO-grunnmenntun sem vonandi skilar sér í bættri hegðun og líðan barna.

DAM – Leikni til lífs (DBT STEPS-A), heildstætt námsefni í geðrækt: Hvað segja frumrannsóknir um áhrif á líðan ungmenna?

Guðrún Jóna Þrastardóttir, starfsmaður í sérkennsluteymi í Leikskólanum Naustatjörn, Karen Geirsdóttir, atferlisþjálfi, Klettaskóli og Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Heildstæð kennsla í félags- og tilfinningafærni (e. social-emotional learning) og geðrækt (e. mental health promotion) fyrir börn og ungmenni hefur í síauknum mæli verið til umræðu innan skólasamfélagsins. DAM – Leikni til lífs (DBT STEPS-A) er heildstætt námsefni í geðrækt ætlað nemendum á aldrinum 10–19 ára. Markmið þess er að stuðla að bættri geðheilsu ungmenna með því að kenna þeim gagnlega félags- og tilfinningafærni. Í þessu erindi munum við segja frá niðurstöðum kerfisbundinnar samantektar (e. systematic review) á rannsóknum á árangri af kennslu þessa námsefnis. Í heild fundust fimm rannsóknir, frá Íslandi, Írlandi og Wales, þar sem árangur af kennslu námsefnisins var metinn. Efnið og kennsla þess var löguð að aðstæðum hverju sinni í öllum rannsóknunum. Með fyrirvara um ýmsar takmarkanir þessara rannsókna benda niðurstöður til þess að námsefnið geti haft jákvæð áhrif á geðheilsu ungmenna, sérstaklega tilfinningastjórn. Farið er yfir takmarkanir rannsóknanna, tillögur að úrbótum og næstu skref í rannsóknum á þessu efni.

 

Hvernig má efla starfsfólk leikskóla í vinnu með börnum sem sýna truflandi hegðun?

Árdís Flóra Leifsdóttir, stuðningsfulltrúi, Díana Lind Sigurjónsdóttir, sérkennari, Erla Jóhannsdóttir, skólastjórnandi, Jóna Kristín Jónsdóttir, leikskólakennari og Margrét Sigmarsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í erindinu verður greint frá inngripi fyrir 4 ára dreng í leikskóla út frá virknimati, bakgrunnsáhrifavöldum og skráningum. Inngripið fólst í einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun og hvatningarkerfi með það að markmiði að draga úr tíðni truflandi hegðunar og auka æskilega hegðun. Drengurinn er almennt kátur, blíður, duglegur, vinnusamur og hefur ánægju af útiveru. Hann er forgreindur með einhverfu, ADHD og greindarskerðingu en það sem háir honum helst er takmarkaður skilningur, samskiptaörðugleikar, hvatvísi, ofvirkni og eirðarleysi. Fyrir inngrip fóru fram mælingar í samverustund, í 15 mínútur í hvert skipti. Þar var mæld truflandi hegðun, s.s. að fara úr sætinu og trufla, sem og æskileg hegðun, eins og að taka þátt. Niðurstöður skráninga sýndu að truflandi hegðunin var tíðari en sú æskilega. Inngripið fólst í að draga úr kröfum á drenginn í samverustund, nota myndrænt skipulag, hvatningarkerfi, félagsfærnisögu og samskiptabók sem fór á milli heimilis og skóla. Allt starfsfólk deildarinnar var virkjað en deildarstjórinn var ábyrgðaraðili þess að inngripinu væri fylgt eftir. Vegna ástandsins í samfélaginu á tímum COVID-19 var hvorki hægt að framkvæma inngripið né seinni mælingar með hefðbundnum hætti. Niðurstöður voru settar fram út frá fyrirliggjandi rannsóknum um virknimat og stuðningsáætlanir og miðað við það voru þær eftirfarandi: Drengurinn varð öruggari og jákvæðari gagnvart samverustundinni og gat notið sín ásamt að mynda jákvæð tengsl við samnemendur og starfsfólk; drengurinn sýndi jafnframt meiri þátttöku án þess að truflandi hegðun væri til staðar og fylgdi betur fyrirmælum starfsfólksins.