Þroskaþjálfafræði á krossgötum: Gamlar og nýjar áskoranir

Háskóli Íslands

Þroskaþjálfafræði á krossgötum: Gamlar og nýjar áskoranir

Aðalfyrirlestur – 2. október kl. 12.30

Guðrún V. Stefánsdóttir prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands

Til að mæta kröfum hvers tíma og þeirri öru þróun sem orðið hefur á hugmyndastaumum í málefnum fatlaðs fólks hefur menntun þroskaþjálfa tekið margvíslegum breytingum allt frá því að fyrstu nemendurnir útskrifuðust úr Gæslusystraskóla Íslands (síðar Þroskaþjálfaskóla Íslands) árið 1960 og fram til dagsins í dag. Oft hefur námið staðið á krossgötum, nú síðast þegar það var lengt úr þremur árum í fjögur en í aðdraganda þess fór fram mikil endurskoðun á náminu sem enn stendur yfir. Frá upphafi hefur farið fram lífleg umræða og skoðanaskipti um nám og hlutverk þroskaþjálfa og mörg og ólík sjónarmið hafa komið fram um hvert skuli stefna. Það sem hefur þó sameinað þessi sjónarmið er samstaða með fötluðu fólki og baráttu þess fyrir sjálfsögðum mannréttindum.

Í erindinu verður sjónum beint að gömlum og nýjum áskorunum í námi þroskaþjálfa. Hvaða stefnur og straumar í málefnum fatlaðs fólks hafa verið stærstu áhrifavaldar? Hvað einkennir fræðasviðið, hverjar eru helstu áskoranir í dag og hver er framtíðarsýnin? Með hvaða hætti birtast áhrif þroskaþjálfafræða á Menntavísindasviði og í samfélagi án aðgreiningar.

Fundarstjóri verður Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa

Erindinu verður streymt, 2. október kl. 12.30, á alþjóðlegum degi þroskaþjálfa. Í framhaldi af aðalerindi Guðrúnar verða málstofur helgaðar viðfangsefnum þroskaþjálfa.